Tveir læknar, sem störfuðu um árabil hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands HSU, sögðu neyðarástand ríkja í heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi í kvöldfréttum í gær. Þá sökuðu þeir stjórn HSU um að bjóða læknum lakari kjör en þekkist annars staðar, sem sé meðal annars ástæða alvarlegs mönnunarvanda.
Forstjóri HSU hafnar því reyndar, segir greiðslur á pari við það sem gengur og gerist í öðrum landshlutum, og segir stöðuna skárri en læknarnir halda fram. Íbúar sem fréttastofa ræddi við á Hvolsvelli eru þó upp til hópa uggandi.
„Ég hef áhyggjur eins og bara allir, þetta er ömurleg staða. Fólk þarf ekki að fá nema astmakast eða eitthvað, þá er enginn læknir. Þetta er bara forkastanlegt. Við líðum ekki svona,“ segir Bergrún Gyða Óladóttir, íbúi á Hvolsvelli. Rætt er við hana og fleiri íbúa á Suðurlandi í frétt Stöðvar 2 hér fyrir neðan.
Verða að fá eitthvað út úr fundinum
Forsvarsmenn sveitarfélaganna í Rangárþingi, þar sem læknalaust var um jólin, eru sammála. Staðan sé grafalvarleg og mál aldraðs manns á Hvolsvelli, sem ekki var hægt að úrskurða látinn á aðfangadag vegna læknaskortsins, sýni það svart á hvítu.
„Það segir okkur að kannski hefur þetta verið tifandi tímasprengja sem við, sem stýrum sveitarfélögunum, höfum ekki áttað okkur á. En þetta er óþolandi staða,“ segir Eggert Valur Guðmundsson, oddviti í Rangárþingi ytra.
Sveitarfélögin geti þó beitt sér til að laða að lækna.
„Við getum boðið húsnæði, við getum boðið leikskólapláss, við getum boðið fólk velkomið. Þannig að það stendur ekki á okkur,“ segir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra og formaður stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.
Forsvarsmenn Ásahrepps og Rangárþings eystra og ytra funda með stjórnendum HSU strax eftir helgi.
„Við verðum að fá eitthvað út úr þessum fundi á mánudaginn. Ef við fáum ekki út úr þessu sem vit er í þá þarf að halda málinu áfram, fá fund með ráðherra,“ segir Eggert.