Skoðun

Sníkju­dýr? Efling af­hjúpar eðli sitt

Aðalgeir Ásvaldsson skrifar

Hún var aldeilis falleg áramótakveðjan sem íslenskir veitingamenn, viðskiptavinir og þúsundir starfsmanna veitingageirans fengu frá Eflingu. Áramótakveðjan, sem sett var fram af stjórnarmanni Eflingar og framkvæmdastjóra vinnudeilusjóðs verkalýðsfélagsins, sýnir svart á hvítu viðhorf forsvarsmanna þess, málefnafátækt, upphrópanastíl, ósannindagraut og veruleikafirringu. Málflutningur af þessu tagi er íslenskri verkalýðshreyfingu til skammar, en sýnir á sama tíma á hvaða leið Efling er í fordæmalausri aðför að íslenskum veitingageira.

Sæþór Benjamín Randalsson fellir sleggjudóma með alhæfingum sem jú vissulega er í samræmi við það sem kemur fram í vikulegu podkasti hans, „Marxískir mánudagar“, en eru i engu samræmi við íslenskan raunveruleika. Í áramótakveðju sinni til íslenskra veitingahúsa, verður honum tíðrætt um miðstéttir og mútur, en hér eru nokkrar upphrópanir hans:

Þessi iðnaður er leikvöllur fyrir misheppnuð börn auðmanna, sem aldrei hefur verið sagt „nei“ við á ævinni.“

Þeir krefast þess að veitingahúsin sem þeir stofna skili reglulegum hagnaði til að fjármagna íburðarmikinn lífstíll þeirra.“

Eigendur sjálfir elda ekki, þrífa eða taka við pöntunum, veitingastaðirnir eru byggðir, skreyttir og mönnuð af öðru fólki.“

Eigendur eru sníkjudýraflokkur sem koma til móts við aðeins lægri flokk sníkjudýra.“

Það er ógeðsleg hegðun sem leiðir til ástandsins í USA þar sem fangar eru keyrðir inn til að elda mat á veitingahúsum á enn lægri launum en frjálsir borgarar þurfa að greiða.“

Þetta er s.s. viðhorf Eflingar til íslenskra veitingahúsaeigenda og þúsunda starfsmanna þess. Sníkjudýr sem koma ekki nálægt daglegum rekstri! Og næsta skref er að sækja fanga á Litla-Hraun til að elda ofan í íslenskan almenning!

Hvert erum við komin í kjarasamningsmálum þegar þetta viðhorf, þessi sýn, mótar samningsaðila? Hvernig á nokkur að geta sest að samningaborði við verkalýðshreyfingu með milljarða milli handanna þegar svona hugsanir ráða för? Íslenskir veitingamenn og starfsfólk á betra skilið. Áramótakveðju Eflingar er vísað til föðurhúsanna með kærri kveðju, en nei takk!

Höfundur er framkvæmdastjóri SVEIT.




Skoðun

Sjá meira


×