Innlent

Fyrsti læknirinn í heil­brigðis­ráðu­neytinu

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Alma D. Möller er nýr heilbrigðisráðherra.
Alma D. Möller er nýr heilbrigðisráðherra. Vísir/Viktor

Alma D. Möller fyrrverandi landlæknir tók við lyklunum að heilbrigðisráðuneytinu í dag frá Ástu Valdimarsdóttur ráðuneytisstjóra. Hún segir tilfinninguna að taka við ráðuneytinu ótrúlega og hlakkar til að læra og takast á við nýja hluti. Hún er fyrsti læknirinn sem verður heilbrigðisráðherra.

„Það er auðvitað ótrúleg tilfinning. Ég er þakklát og stolt yfir því að fá að setjast í ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur, en ég geri það með mikilli auðmýkt. Þó ég sé ágætlega undirbúin veit ég að það er mjög margt sem ég þarf að læra, en það er eitt af því skemmtilegasta sem ég veit, að læra og takast á við nýja hluti,“ segir Alma.

Ölmu skilst að hún sé fyrsti læknirinn sem sest í heilbrigðisráðherrastól.

„Já mér skilst það. Ég leitaði nú til Ólafs Þ. Harðarsonar og auðvitað hafði hann skrifað grein um lækna og stjórnmál. Þar kom fram að það var læknir í utanþingsstjórn í nokkra mánuði 1942-1943, en það hefur enginn læknir verið heilbrigðisráðherra,“ segir hún.

„Og eins og dóttir mín sagði þá er tími til kominn!“

Öldrunarmál og málefni barna og ungmenna mikilvægust

Alma segir að fyrsta verkefnið sé eins og alltaf þegar maður kemur á nýjan vinnustað að kynnast verkefnunum sem eru í gangi. Svo sé ríkisstjórnin með ákveðin áherslumál.

„Það eru öldrunarmál, þjóðarátak í ummönnun aldraðra. Þar flytjast þau verkefni til Ingu Sæland, og ég auðvitað vinn með henni í því.“

Svo brenni ríkisstjórnin og hún fyrir málefnum barna og ungmenna.

„Mín fyrstu áhersluatriði munu lúta að þessu tvennu,“ segir Alma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×