Innlent

Sterkt sam­band for­manna gott vega­nesti

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Þorgerður Katrín segir samband sitt og Kristrúnar og Ingu vera sterkt.
Þorgerður Katrín segir samband sitt og Kristrúnar og Ingu vera sterkt. Vísir/Vilhelm

Formenn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins halda eftir hádegi áfram vinnu við að skrifa stjórnarsáttmála flokkanna. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar segist enn bjartsýn á að það takist að mynda nýja ríkisstjórn fyrir áramótin.

Stjórnarmyndunarviðræður Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins hófust fyrir hálfum mánuði og hafa formenn flokkanna fundað stíft síðan. Í byrjun vikunnar hófst svo vinna við að skrifa stjórnarsáttmála. Þorgerður Katrín segir vinnuna í fullum gangi.

„Við erum að fara að hittast aftur á eftir stelpurnar núna upp úr hádeginu og erum að svona fara yfir eitt og annað með okkar fólki núna og svo hittumst við eftir hádegi og samtölin ganga vel. Þetta bara svona mjakast áfram.“

Þorgerður segir erfitt að segja nákvæmlega til um hversu langan tíma það taki að skrifa stjórnarsáttmálann. Aðspurð segist hún bjartsýn á framhaldið.

„Ég er það. Þetta gengur vel og það er auðvitað ekkert allt alveg komið en samtölin eru góð og sambandið á milli okkar þriggja er sterkt og það líka finnst mér mikilvægt nesti inn í það sem fram undan er.“

Þá er hún bjartsýn á að vinnu við nýjan stjórnarsáttmála ljúki fyrir áramótin og ný ríkisstjórn taki við.

„Ég er tiltölulega bjartsýn á það að það náist vel fyrir áramót.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×