Innlent

Fá milljarða frá ESB til að tryggja vatnsgæði á Ís­landi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Kleifarvatn. Mynd úr safni.
Kleifarvatn. Mynd úr safni. Vísir/Arnar

Samband íslenskra sveitarfélaga auk nokkurra einstakra sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana taka þátt í verkefni sem miðar að því að tryggja vatnsgæði á Íslandi. Verkefnið hefur hlotið þrjá og hálfan milljarð króna í styrk frá Evrópusambandinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga en um er að ræða einn stærsta styrk sem íslenskt verkefni hefur fengið frá Evrópusambandinu.

Verkefnið, sem ber heitið Life Icewater, nær yfir vinnu við fjölbreytt verkefnum sem eiga að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi. Markmið verkefnisins er meðal annars að auka þekkingu á notkun, eiginleikum og ástand vatns hér á landi, tryggja samhæfða stjórnsýslu og bæta vatnsgæði að því er fram kemur í tilkynningunni. Það verði til dæmis gert með úrbótum í fráveitu og með hreinsun á fráveituvatni.

Það er umhverfisstofnun sem leiðir verkefnið en auk Sambands íslenskra sveitarfélaga tekur hópur sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana þátt í verkefninu. Það eru samstarfsaðilarnir Eimur, Gefn, Grundarfjarðarbær, Hafrannsóknastofnun, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Hveragerðisbær, Isavia, Ísafjarðarbær, Kópavogsbær, Matvælastofnun, Náttúrufræðistofnun, Náttúruminjasafn Íslands, Orka náttúrunnar, Orkustofnun, Orkuveita Húsavíkur, Orkuveita Reykjavíkur, Reykjavíkurborg, Ríkisútvarpið, umhverfis,- orku og loftslagsráðuneyti, Veðurstofa Íslands og Veitur, ásamt þremur óbeinum þátttakendum: Sveitarfélagið Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

Nánar er fjallað um verkefnið á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×