Þetta kemur fram í skýrslu yfirkjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi til landskjörstjórnar. Yfirkjörstjórnir annarra kjördæma hafa þegar greint frá yfirstrikunum í nýafstöðnum kjördæmum.
Lítið sem ekkert strikað yfir Bryndísi
Í Kraganum var oftast strikað yfir Þórdísi Kolbrúnu en hún færði sig í kjördæmið fyrir kosningarnar eftir að hafa lengi boðið sig fram í Norðvesturkjördæmi. Hún skipaði annað sæti listans. Alls strikuðu 591, eða 3,94 prósent kjósenda lista Sjálfstæðisflokks í kjördæminu.
Næstur á eftir henni var Bjarni Benediktsson, formaður og oddviti flokksins, með 544 útstrikanir. Athygli vekur að aðeins 71 strikaði yfir Bryndísi Haraldsdóttur í þriðja sæti listans en 210 strikuðu yfir Rósu Guðbjartsdóttur í fjórða sætinu og 224 strikuðu yfir Jón Gunnarsson í því fimmta.
Mest strikað yfir oddvitana
Sjálfstæðismenn skipa þannig fjögur efstu sætin á lista yfir flestar yfirstrikanir. Næst á eftir þeim er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður og oddviti Viðreisnar, með 130 yfirstrikanir, og Bergþór Ólason, oddviti Miðflokks, með 109 yfirstrikanir.
Þar á eftir er Alma Möller, oddviti Samfylkingarinnar, með 106 yfirstrikanir. Athygli vekur að nánast enginn strikaði yfir Guðmund Ara Sigurjónsson í öðru sæti listans, 16 kjósendur, en 102 strikuðu yfir Þórunni Sveinbjarnardóttur í þriðja sætinu.
Flokkur fólksins hlaut 7.014 atkvæði í kjördæminu, 11 prósent, en aðeins sex kjósendur strikuðu yfir oddvitann Guðmund Inga Kristinsson.