Að sögn Karls Inga Vilbergssonar, saksóknara hjá Embætti héraðssaksóknara, var ákæra birt Sigurði Fannari klukkan 15 og gæsluvarðhald yfir honum framlengt samhliða því.
Ekki ljóst hvort þinghald verði háð í heyranda hljóði
Hann segir að Sigurður Fannar sæti ákæru fyrir manndráp í skilningi 211. grein almennra hegningarlaga. Hún kveður á um að hver, sem sviptir annan mann lífi, skuli sæta fangelsi, ekki skemur en fimm ár, eða ævilangt.
Þá segir hann eftir að koma í ljós hvort þinghald í málinu verði opið eða lokað, því sé ekki hægt að afhenda ákæruna að svo stöddu. Hann vilji ekki tjá sig efnislega um málið.
Hringdi sjálfur í Neyðarlínuna
Sigurður Fannar hringdi sjálfur í Neyðarlínuna að kvöldi 15. september og tilkynnti að dóttir hans væri látin í hrauninu gegnt Vatnsskarðsnámu við Krýsuvíkurveg. Þar var maðurinn handtekinn á sama tíma og leitað var að stúlkunni, en hún fannst skammt frá. Strax voru hafnar endurlífgunartilraunir, en þær báru ekki árangur og stúlkan var úrskurðuð látin á vettvangi.