Handbolti

Elvar rekinn af velli er Melsungen endur­heimti efsta sætið

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Elvar Örn Jónsson skoraði átta mörk áður en hann var rekinn af velli. 
Elvar Örn Jónsson skoraði átta mörk áður en hann var rekinn af velli.  Getty/Swen Pförtner

Melsungen endurheimti efsta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta með 29-27 sigri á útivelli gegn Wetzlar í 13. umferð.

Hart var barist í viðureign liðanna, forystan skiptist oft um hendi og erfitt var að spá fyrir um sigurvegara. Melsungen reyndist sterkara liðið þegar til kastanna kom undir lokin.

Gestirnir voru undir en læstu eigin marki síðustu þrjár mínútur, skoruðu síðustu þrjú mörk leiksins og fóru með stigin tvö.

Toppsætið var því tekið aftur af Burgdorf, sem vann Rhein-Neckar Löwen í gær. Liðin tvö eru jöfn að stigum í efsta sæti en Melsungen með örlítið betri markatölu.

Elvar Örn Jónsson fór mikinn á miðjunni, skoraði átta mörk og gaf þrjár stoðsendingar fyrir Melsungen en var rekinn af velli með rauðu spjaldi þegar tæpar tíu mínútur voru eftir.

Arnar Freyr Arnarsson stóð á línunni og skoraði tvö mörk fyrir Melsungen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×