Handbolti

„Ég fór ekkert allt­of seint að sofa“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Thea Imani stökk hátt yfir vörnina.
Thea Imani stökk hátt yfir vörnina. Christina Pahnke - sampics/Getty Images

„Þetta var bara svekkjandi. Við spiluðum mjög góðan leik og leiðinlegt að fá ekki stig út úr þessu,“ segir skyttan Thea Imani Sturludóttir um leik Íslands við Holland á EM. Úkraína bíður í dag.

Thea nýtti fyrrakvöld til að ná úr sér öllu svekkelsi eftir leikinn. Strax í gær var öll einbeiting komin á Úkraínu.

„Ég tók bara kvöldið í það. Ég fór ekkert alltof seint að sofa. Það var allt í lagi að svekkja sig á þessu í gærkvöldi en núna er bara nýr dagur og við farnar að hugsa um næsta leik,“ segir Thea. Margt gott sé hægt að taka úr leiknum við þær hollensku.

„Já, klárlega. Það var ekkert alltof mikill tími eftir leikinn til að fara að horfa á hann aftur. Við tökum daginn í dag (í gær) til að skoða þær og leikinn okkar. Hvað við getum tekið jákvætt úr því og líka bætt.“

Thea hefur verið töluvert í meðhöndlun hér ytra. Hún hefur sleppt upphitun og þess í stað fengið nudd. Fæturnir eru aðeins stífir vegna álags.

„Bara stíf aðeins. Annars allt gott. Fæturnir eru stífir. Bara álagsdæmi. Við höfum verið að skipta um gólf mikið og líka búnar að vera að spila í Evrópu með Val. Ég er annars góð,“ segir Thea.

Klippa: Thea stíf en ekkert stórvægilegt

Úkraína er næst í dag en liðið tapaði stórt fyrir Þýskalandi í fyrrakvöld. Thea segist ekki horfa of mikið í það.

„Við munum skoða leikinn þeirra og stilla upp hvernig við viljum spila á móti þeim. Ég held við séum ekkert allt of mikið að spá í þeirra niðurstöður heldur bara hvað við getum gert í okkar leik.“

Fleira kemur fram í viðtalinu við Arnar sem má sjá í heild sinni í spilaranum.

Ísland mætir Úkraínu klukkan 19:30 í kvöld. Leiknum verður lýst beint á Vísi og íslenska liðinu fylgt vel eftir fram að leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×