Þetta staðfestir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í samtali við Vísi. Hann segir að ekki sé búið að skrifa undir samninga eða semja þá. Þess í stað sé búið að ramma inn hvernig vinna á að samningum næstu tvo mánuði. Á meðan ríkir svokölluð friðarskylda. Í kjölfar þeirrar vinnu verði samningurinn kynntur efnislega.
Fá launahækkun um áramótin
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir í samtali við fréttastofu að kennarar muni fá umsamda 3,95 prósenta launahækkun um áramótin. Við undirritun eiginlegs samnings muni kennarar eiga inni inneign fyrir fyrsta áfanga þeirrar jöfnunar kjara milli markaða sem deilan hefur helst snúist um.
„Okkar fólk er tilbúið til að halda baráttunni áfram. Þetta er barátta fyrir því að getum fjárfest í kennurum, eflt skólastarfið, gert hlutina betur. Mitt fólk hefur verið ótrúlega öflugt allan þennan tíma og við erum ekki að gefast upp. Alls ekki. Við erum að stoppa hérna til þess að gefa okkur andrými til að komast lengra. Við erum enn þá algerlega á þeirri vegferð að við munum komast í endamarkið.“
Umdeild verkföll
Kennaraverkföll hófust í átta skólum þann 29. október síðastliðinn. Ótímabundið verkfall hófst í fjórum leikskólum. Það er leikskóli Seltjarnarness, leikskólinn Holt í Reykjanesbæ, leikskólinn Drafnarsteinn í Reykjavík og leikskólinn Ársalir á Sauðárkróki.
Farið var í verkfall í þremur grunnskólum sem hófst 29. október og varði til 22. nóvember. Það er í Áslandsskóla í Hafnarfirði, Laugalækjarskóla í Reykjavík og Lundarskóla á Akureyri.
Þá lögðu kennarar í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi niður störf frá 29. október til 20. desember. Kennarar við Menntaskólann í Reykjavík lögðu niður störf 18. nóvember.
Á mánudag tóku við verkföll í Garðaskóla í Garðabæ, Árbæjarskóla í Reykjavík og Heiðarskóla í Reykjanesbæ. Þau áttu að standa til 20. desember.
Fréttin hefur verið uppfærð.