Mbl.is greindi frá fjölmennri lögregluaðgerð við Stjórnsýsluhús Ísafjarðar á miðvikudag en húsið hýsir hinar ýmsu stofnanir og fyrirtæki. Mbl.is hafði eftir Helga Jenssyni, lögreglustjóranum á Vestfjörðum, að hann gæti ekki tjáð sig um málið og von væri á tilkynningu vegna þess.
Vísi barst ábending um að á miðvikudag hafi verið haldin æfing hjá lögreglunni á Ísafirði. Hún er til húsa í stjórnsýsluhúsinu. Helgi staðfestir í samtali við Vísi að um valdbeitingaræfingu hafi verið að ræða í og við stjórnsýsluhúsið, engin eiginleg aðgerð hafi farið fram þar.
Aftur á móti hafi sama dag komið upp fíkniefnamál í umdæminu, sem ekki sé tímabært að upplýsa um að svo stöddu en von sé á tilkynningu vegna. Hann hafi haldið að blaðamaður Mbl.is hafi verið að vísa til þess máls og því ekki tjáð sig um æfinguna við stjórnsýsluhúsið.