Skoðun

Rétt­lætis­mál fyrir eldri borgara

Jónína Björk Óskarsdóttir skrifar

Flokkur fólksins hefur frá upphafi barist fyrir hagsmunum eldra fólks. Nú í haust áður en Alþingi var rofið mælti Inga Sæland fyrir tveimur málum sem varða hagsmuni eldri borgara. Þetta voru frumvörp um annars vegar afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna og hins vegar hækkun almenns frítekjumarks vegna lífeyristekna úr 300.000 kr. upp í 1.200.000 kr. á ári, eða 100.000 kr. á mánuði. Þessi tvö mál eru meðal fyrstu mála sem við í Flokki fólksins mæltum fyrir þegar flokkurinn komst á Alþingi árið 2017, og eru þetta tvö af kjarnamálunum okkar.

Þótt frítekjumark vegna atvinnutekna hafi verið hækkað á síðustu árum breytir það ekki þeirri stöðu að ef ellilífeyrisþegi fer umfram þetta mark þá skerðist ellilífeyrir hans um 45% af því sem umfram er, sem mætti jafna til hátekjuskatts. Það er ekki hægt að sjá að afnám þessarar reglu um skerðingar vegna atvinnutekna eldra fólks leiði til aukinna ríkisútgjalda og ávinningurinn er augljós. Rannsóknir hafa sýnt að virkni á efri árum stuðli að betri heilsu, dregur úr einangrun og hefur almennt mikið félagslegt gildi fyrir eldri borgara. Þess vegna höfum við ávallt talað fyrir því að eldra fólk hafi möguleika til að bæta kjör sín með því að vinna óskert.

Eldri borgarar hafa sjálfir sparað fyrir lífeyrissjóðshlutdeild sinni. Í skerðingu bótagreiðslna á grundvelli lífeyristekna felst því skerðing á þeim hagsmunum sem eldra fólk hefur unnið sér inn með vinnu í gegnum lífið. Við í Flokki fólksins munum alltaf berjast gegn skerðingum. Það er verið að svipta eldra fólk eignarrétti sínum og áunnum réttindum sem okkur finnst til háborinnar skammar.

Höfundur er á 2. sæti á lista Flokks fólksins í Suðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×