Skoðun

Gleymdu leikskólabörnin

Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir skrifar

Þrjú hafa misst vinnuna, einhver þurft að segja upp í vinnu, nokkur þurft á læknisaðstoð að halda, mörg hafa klárað allt sumarorlof næsta árs og flestir sjá fram á töluvert lægri útborgun mánaðarmótin fyrir jól. Örvæntingafullar mæður hringja í stjórnmálafólk um miðjar nætur og grátbiðja um hjálp. Barnavernd komin inn í málin á nokkrum heimilum.

Þetta er ekki byrjun á dystopískri skáldsögu heldur raunveruleikinn sem blasir við nokkrum fjölskyldum á landinu vegna yfirstandandi verkfallsaðgerða kennara. Ímyndið ykkur að þið væruð stödd í miðjum Covid heimsfaraldri nema þið væruð ein af örfáum. Flestir aðrir lifðu áfram eðlilegu lífi og fáir vissu af ykkar stöðu. Svona líður örfáum barnafjölskyldum á fjórum stöðum á landinu akkúrat núna.

Foreldar hafa verið sökuð um forréttindablindu, að við lifum í búbblu og fáum allt upp í hendurnar og höfum ekki tilfinningalega né vitsmunalega greind til þess að glíma við mótlæti(þetta er ekki grín, þessi orð voru látin falla opinberlega). Þessar fullyrðingar gætu auðvitað ekki verið fjarri sannleikanum. Margar fjölskyldnanna eru nefnilega í þveröfugri stöðu við fallegu fullyrðingarnar hér að ofan og hafa einfaldlega ekki tök á því að láta í sér heyra sökum stöðu sinnar.

Vika fimm af ótímabundnu verkfalli í fjórum leikskólum er gengin í garð. Vert er að minnast á það að ein lengsta verkfallsaðgerð kennarasambandsins á síðari árum var sex vikna allsherjarverkfall í grunnskólum landsins sem mjög margir muna vel eftir. Það styttist í að umrætt verkfall núna nái þessum tímamörkum og gott betur en það. Hins vegar munu líklegast fáir muna eftir þessum aðgerðum, þar sem hér er ekki um að ræða allsherjarverkfall, heldur ótímabundið verkfall á fjórum leikskólum á landinu þar sem um 600 börn og fjölskyldur þeirra verða fyrir barðinu.

Þessi grein er skrifuð í þeirri veiku von að þeir sem beri ábyrgð sjái sóma sinn í því að breyta þessum gegndarlausu aðgerðum tafarlaust. Hér eru börnin okkar notuð sem peð í kjaradeilu sem er í besta falli siðlaus en í versta falli ólögleg. Hér er börnunum okkar mismunað gróflega og fáir virðast ætla að kippa sér upp við það. Það gefur auga leið að þessar aðgerðir setja enga pressu á samningsaðila að semja og það hefur sannað sig, samningsaðilar eru rétt að byrja að ræða saman eftir rúmar fjórar vikur af verkfalli(og það er deginum ljósara að það er langt í langt miðað við viðtöl við ríkissáttasemjara síðustu daga). Það skal tekið fram að verkfallsaðgerðum má beita til þess að setja þrýsting á deiluaðila að ná sáttum, en þessar aðgerðir uppfylla augljóslega ekki þau skilyrði.

Þegar þetta er skrifað hefur margsinnis verið þrýst á Samband íslenskra sveitarfélaga að beita sér í málinu. Mörg bréf og skilaboð til ráðherra, frambjóðenda, forseta og allra þeirra sem gætu og ættu að tjá sig um málið, hafa verið skrifuð. Kjarni málsins er hins vegar sá að Kennarasamband Íslands er sá aðili sem getur breytt aðgerðunum. Kallað hefur verið eftir því að verkföll leikskólana verði tímabundin eins og á öðrum skólastigum og leikskólunum verði róterað. Þessu kalli hefur ekki verið svarað en hins vegar ákvað forysta KÍ að bæta við 10 leikskólum í viðbót sem munu hefja ótímabundið verkfall eftir örfáar vikur. Þeir fjórir leikskólar sem nú þegar hafa afplánað tæpar fimm vikur munu hins vegar ekki sleppa úr prísundinni heldur sitja heima áfram.

Nú sjá foreldrar þann eina kost í stöðunni að leita réttar barna sinna fyrir dómstólum. Mig langar að hvetja kennara sem þetta lesa til þess að þrýsta á sína forystu að breyta aðgerðunum. Það verður að teljast afar líklegt að mannúðlegri aðgerðir sem dreifast á fleiri fái mun meiri athygli, setji meiri pressu á deiluaðila og það sem mestu máli skiptir, skili sér í samstöðu og samkennd þjóðarinnar með kennurum.




Skoðun

Sjá meira


×