Þetta segir Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðayfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi.
Úrskurðuð látin á vettvangi
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um miðnætti þann 13. október vegna málsins og héldu viðbragðsaðilar strax á vettvang. Endurlífgunartilraunir hófust um leið og komið var á vettvang en þær báru ekki árangur.
Konan, sem var tæplega sjötug samkvæmt heimildum fréttastofu, var úrskurðuð látin á vettvangi, í íbúð í fjölbýlishúsi í Breiðholti.
Niðurstöður krufningar liggja ekki fyrir
Elín Agnes segir að rannsókn málsins miði vel og sé nú komin í hefðbundinn farveg. Maðurinn verði í gæsluvarðhaldi til 28. þessa mánuðar hið skemmsta en ekki hafi verið tekin ákvörðun um hversu lenga framlengingu verði farið fram á. Lögreglan stefni að því að halda sig innan hefðbundins tólf vikna hámarkstíma gæsluvarðhalds, án þess að ákæra sé gefin út.
Þá segir hún að niðurstaða krufningar liggi ekki fyrir og ekki sé tímabært að gefa upp hvert banamein konunnar hafi verið eða um mögulega notkun vopns.