Ljóst er hvaða 96 keppendur verða á HM 2025 og búið er að draga. Heimsmeistaramótið stendur frá 15. desember til 3. janúar.
Sherrock, sem varð fyrsta konan til að vinna leik á HM fyrir fimm árum, mætir Ryan Meikle í 1. umferð mótsins. Ef hún sigrar hann mætir hún Littler í 2. umferð. Efstu 32 á heimslistanum koma inn í 2. umferð.
Sherrock vakti heimsathygli þegar hún vann Ted Evetts og Mensur Suljovic á HM 2020. Hún komst ekki á HM 2021 en hefur dottið út í 1. umferð á síðustu þremur heimsmeistaramótum.
Littler skaust upp á stjörnuhimininn á síðasta heimsmeistaramóti. Þrátt fyrir að vera aðeins sextán ára vann hann hvern andstæðinginn á fætur öðrum og komst alla leið í úrslit þar sem hann tapaði fyrir Luke Humphries. Littler hefur fylgt árangrinum á HM vel eftir og unnið tíu mót á sínu fyrsta tímabili sem atvinnumaður.
Heimsmeistarinn Humphries mætir annað hvort Thibault Tricole eða Joe Comito í 2. umferð á HM í ár. Humphries og Littler gætu mæst í undanúrslit ef þeir vinna allar sínar viðureignir fram að þeim.