Í tilkynningu á vef Neytendastofu segir að um hafi verið að ræða stjórnvaldssekt vegna auglýsinga um „Tax Free“ afslátt þar sem annars vegar vantaði alveg upplýsingar um prósentuhlutfall lækkunarinnar í auglýsingarnar en hins vegar hafi hlutfallið verið tilgreint í smáu og ólæsilegu letri. Neytendastofa hafi lagt 850 þúsund króna sekt á Hagkaup fyrir brotin.
Áfrýjunarnefnd neytendamála hafi fellt úr gildi hluta ákvörðunarinnar vegna formgalla á málsmeðferð sem leiddi til þess að Hagkaup gat ekki tjáð sig um efni málsins. Sá hluti ákvörðunarinnar sem sneri að auglýsingum á samfélagsmiðlum þar sem hlutfallið kom ekki fram hafi því verið felldur úr gildi.
Nefndin hafi hins vegar staðfest þann hluta ákvörðunarinnar sem sneri að auglýsingum þar sem prósentuafsláttur var tilgreindur með óskýrum og ólæsilegum hætti.
Í ljósi þess að hluti ákvörðunarinnar var felldur úr gildi hafi áfrýjunarnefndin talið tilefni til að lækka stjórnvaldssektina í 400 þúsund krónur.