Handbolti

Embla tryggði Stjörnunni sigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Embla Steindórsdóttir var allt í öllu í kvöld og tryggði Stjörnukonum langþráðan sigur.
Embla Steindórsdóttir var allt í öllu í kvöld og tryggði Stjörnukonum langþráðan sigur. Vísir/Hulda Margrét

Embla Steindórsdóttir var hetja Stjörnukvenna í kvöld þegar Stjarnan vann eins marks sigur á ÍR, 29-28, í Olís deild kvenna í handbolta.

Embla skoraði sigurmarkið á lokamínútum leiksins. Stjörnukonur skoruðu tvö síðustu mörk leiksins og var Embla á ferðinni í bæði skiptin.

Embla átti frábæran leik því hún var með níu mörk og átta stoðsendingar og kom því með beinum hætti að sautján mörkum liðsins í kvöld.

Leikurinn var æsispennandi en staðan var jöfn í hálfleik, 15-15.

Katrín Tinna Jensdóttir skoraði níu mörk fyrir ÍR og Sara Dögg Hjaltadóttir skoraði sex mörk.

Guðmunda Auður Guðjónsdóttir og Anna Karen Hansdóttir skoruðu báðar fimm mörk fyrir Stjörnuna.

Stjörnukonur unnu þarna sinn fyrsta sigur í fimm leikjum en síðasti sigur liðsins var á móti botnliði Gróttu í október.

Liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn en Stjarnan hoppaði upp fyrir ÍBV og Selfoss með þessum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×