Skoðun

Sam­einumst, hjálpum þeim

Ása Berglind Hjálmarsdóttir skrifar

Átt þú náinn aðstandanda í fíknivanda? Ég vil segja við þig: Ég skil þig.

Ég skil tilfinninguna sem fylgir því að horfast í augu við úrræðaleysið.

Ég skil skömmina sem læðist að manni.

Ég skil reiðina yfir því að fá ekki hjálp og sársaukann þegar sá sem maður elskar breytist smátt og smátt í einhvern sem mann langar helst ekki að kannast við.

Ég átti dásamlegan, brosmildan, eldkláran og athafnasaman bróður sem var fjórum árum yngri en ég. Hann hafði allt sem þurfti til þess að verða hörkuduglegur smiður, bakari já eða garðyrkjumaður, því hann fann með sér hæfileika til þess að rækta á sínum síðustu árum. En það sem hann ræktaði var ekki löglegt heldur kannabis plantan og þegar hann lést kom það í minn hlut að láta hreinsa niður blómlega ræktun sem hann var búinn að koma sér upp. Þá gat ég ekki annað en hugsað, bara ef þessir hæfileikar hefðu fengið eðlilegan farveg, bara ef hann hefði fundið sína styrkleika fyrr á ævinni og fundið sína fjöl í lífinu. Þá hefði hann ef til vill ekki leiðst út í fíkniefnaneyslu, afbrot og fangelsisvist. Þá hefði fjölskyldan ekki þurft að ganga í gegnum þann óbærilega sársauka, sem fylgir því að horfa á eftir þeim sem maður elskar fara þessa leið.

Knútur var 24 ára þegar hann lést, beltislaus og undir áhrifum fíkniefna, í bílslysi. Tölurnar sem birtast okkur um þá sem látast af völdum of stórra skammta eru ekki eina breytan í heildarmyndinni þegar dauðsföll af völdum fíkniefna eru skoðuð. Tilfellin eru mun fleiri, tilfelli eins og bróður míns, þar sem fíknin veldur slysum eða leiðir til þess að fíkillinn sér enga leið út aðra en taka eigið líf. Hvert tapað líf snertir marga, veldur harmi sem aðstandendur bera í hljóði, kostar samfélag okkar mikla fjármuni og við gjöldum þess öll þegar lífsglaður og hæfileikaríkur einstaklingur hverfur úr lífi okkar og samfélagi.

Stóreflum stuðning og finnum fjalir

Við verðum að stórefla stuðning við börn og ungmenni. Það þarf að fjölga meðferðarúrræðum bæði fyrir ungmenni og fullorðna. Við þurfum að styrkja Barna- og unglingageðdeild, BUGL og úrræði eins og Stuðla. Það þarf að efla stuðning við foreldra og aðstandendur í aðstæðum sem enginn er búinn undir. Við þurfum að stórauka aðgengi að sálfræðingum og öðrum sérfræðingum sem geta hjálpað börnum og ungmennum að takast á við áföll, erfiðar félagslegar aðstæður, tilfinningavanda og fíknivanda.

Við þurfum að byrja fyrr að hjálpa börnum að finna sína fjöl í lífinu, styðja fjölskyldur, efla tilfinninga- og geðheilbrigði barna og byrja þá vinnu strax við fæðingu.

Það er ráðið til að sporna við þessari þróun. Ungmenni sem fer af stað út í lífið eftir grunnskólagöngu með sterka sjálfsmynd, sem er búið að finna hvar hæfileikarnir og áhuginn liggur, er mun líklegra til þess að halda áfram skólagöngu og vegna vel heldur en þau sem leggja af stað í lífsins ólgusjó með brotna sjálfsmynd og óviss um hvert þau eiga að stefna í lífinu.

Þarna skiptir aðgengi að list- og verkgreinum höfuðmáli, bæði í skólakerfinu og tómstundum. Börn sem eiga erfitt með lestur og einbeitingu geta oft blómstrað í smíðum, myndlist, tónlist, dansi, leiklist, forritun, kvikmyndagerð og svona mætti lengi telja. Það er í raun lífsspursmál að börn og ungmenni fái tækifæri til að máta sig í þessum greinum og ef þau finna sig í þeim, þá verður að tryggja að þeim sé gefið tækifæri til þess að rækta hæfileika sína markvisst.

Menning og skapandi greinar eru alvöru atvinnuvegur

Öll þessi fög eru alvöru atvinnugreinar, sem gefa alvöru tekjur og tryggja ungmennum alvöru framtíð. List- og verkgreinar eiga ekki að vera afgangs stærð í skólakerfinu okkar og það er mikilvægt að hafa það í huga þegar umræðan helgast í kringum samræmt námsmat og Pisa kannanir. Menning og skapandi greinar skila 3,5% til landsframleiðslunnar. Til samanburðar þá skilar sjávarútvegur og fiskeldi 4%. Menning og skapandi greinar eru líka lykilatvinnuvegur þegar kemur að framtíðinni og þeirrar byltingar sem á sér stað í atvinnuháttum.

List-, verk-, og tæknigreinar í skólum, frístundastarf, félagsmiðstöðvar, tónlistarnám, íþróttir og aðrar tómstundir eru lykilatriði í því hvernig við snúum við þeirri þróun sem við horfum á þegar kemur að aukinni vanlíðan ungmenna. Það þarf að stórauka aðgengi og vinna markvisst að því að hjálpa ungmennum að finna sína fjöl í lífinu, líka þegar þau eiga erfitt með að sitja kyrr, lesa eða einbeita sér.

Fyrir skömmu hitti ég fanga á Hólmsheiði sem var að störfum í listasmiðju. Þar sagðist hann í fyrsta sinn finna fyrir hugarró á meðan hann var að mála muni sem hann var að búa til, hann gat í fyrsta sinn einbeitt sér og fundist hann flinkur í einhverju. Þessi orð höfðu djúp áhrif á mig og styrktu mig enn frekar í þeirri trú að það er nauðsynlegt að efla aðgengi að list- og verkgreinum. Ég mun beita mér fyrir því fái ég til þess umboð í komandi kosningum.

Að lokum langar mig að senda baráttukveðjur til allra kennara landsins. Þið, velferð ykkar og sérþekking er svo óendanlega mikilvæg öllu ungu fólki og kennarastarfið ætti að vera metið til launa í samræmi við það.

Höfundur er frambjóðandi í 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×