Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um þessa fáheyrðu stöðu; útboðsstopp sem staðið hefur í meira en heilt ár. Fjórtán mánuðir eru núna frá því Vegagerðin bauð síðast út stórt verk.
Meðal verkefna sem bjóða átti út á þessu ári en lentu í salti voru: Fossvogsbrú, tvöföldun á Kjalarnesi að Hvalfjarðargöngum, brúasmíði í Gufudalssveit, næsti áfangi á Dynjandisheiði og nýr vegur um Brekknaheiði á Langanesi.

Ástæðan er einkum sú að fjármögnun Hornafjarðarfljóts á grundvelli laga um samvinnuverkefni stóðst ekki. Verkið var engu að síður sett af stað, án nægilegra fjárheimilda, og sogaði það til sín fjárveitingar úr öðrum verkum. Þetta olli uppnámi í þinginu síðastliðið vor og var helsta ástæða þess að stjórnarmeirihlutinn treysti sér ekki til að afgreiða samgönguáætlun.
Ríkisstjórnin hefur núna komið því verkefni til fjárlaganefndar Alþingis að kanna hvort unnt sé að koma einhverjum þeirra verka, sem til stóð að hefja á þessu ári, í útboð sem fyrst. Heimildir fréttastofu herma að það sé þó hæpið að þau komist öll í gang á næsta ári, meðal annars sökum þess að Hornafjarðarfljót er enn vanfjármagnað.
Þá eru litlar líkur taldar á því að ný jarðgöng verði boðin út á nýju ári. Fjarðarheiðargöng hafa verið næst á dagskrá og þau einu sem eru tilbúin til útboðs. Það virðist þó vera vilji til þess að setja meiri kraft í undirbúning annarra jarðganga. Þar eru nefnd Fljótagöng, ný Ólafsfjarðargöng, ný Hvalfjarðargöng og Súðavíkurgöng.

Frestun samgönguáætlunar þýðir jafnframt óvissu um hvernig fer með önnur stórverkefni sem kallað hefur verið eftir. Ef fjögurra ára samgönguáætlun, sem til stóð að kynna núna í október, væri komin fram myndi sjást mörkuð stefna um til dæmis hvenær farið yrði í fleiri Borgarlínuverkefni, breikkun Suðurlandsvegar út frá Reykjavík eða breikkun við Hveragerði. Einnig hvort verkefni eins og Veiðileysuháls á Ströndum kæmist á dagskrá, brúargerð yfir Skjálfandafljót eða Axarvegur.
Þá verður áhugavert að sjá hvernig fer með nýja Ölfusárbrú. Fyrir síðustu þingkosningar var brúin helsta kosningaloforð Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra sem lofaði að hún yrði tilbúin annaðhvort árið 2023 eða 2024. Það mun augljóslega ekki rætast.
Hann er hins vegar búinn að leggja fram breytingartillögu við bandorminn svokallaða í von um að hysja upp um sig brækurnar. Ef tillagan verður samþykkt þá gæti farið svo að skrifað yrði undir verksamning um Ölfusárbrú í vikunni fyrir kjördag.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: