Tveir árásarmenn, maður og kona, ruddu sér leið inn í höfuðstöðvar Turkish Aerospace Industries í Ankara í gær. Árásin hófst á stórri sprengingu en talið var upprunalega að þar hefði einn vígamaður til viðbótar sprengt sig í loft upp. Svo virðist þó ekki vera.
Eins og áður segir létu fimm manns lífið í árásinni og 22 særðust, þar á meðal sjö sérsveitarmenn. Því var lýst yfir í gær að fjórir hefðu fallið en sá fimmti var leigubílsstjóri sem árásarmennirnir eru sagðir hafa myrt fyrir árásina, til að taka bíl hans.
Yfirvöld í Tyrklandi segja að maðurinn og konan hafi verið felld. Ali Yerlikaya, innanríkisráðherra Tyrklands, hefur samkvæmt BBC lýst því yfir að bæði maðurinn og konan hafi verið meðlimir í PKK.
Þau eru sögð hafa heitið Ali Orek og Mine Sevjin Alcicek.
Meðlimir PKK, sem skilgreind eru sem hryðjuverkasamtök í Tyrklandi og víðar, hafa um árabil barist fyrir sjálfstæðu ríki Kúrda í austurhluta Tyrklands og hefur þessi barátta oft verið mjög blóðug.
Enginn hefur þó lýst yfir ábyrgð á árásinni.
Meðlimir PKK hafa starfað með sýrlenskum Kúrdum eða YPG í Sýrlandi, sem leitt hafa samtökin SDF á undanförnum árum. Tyrkir hafa reglulega gert loftárásir gegn báðum hópum í Sýrlandi og einnig gegn PKK í Írak.
Ráðamenn í Tyrklandi segja árásir næturinnar hafa beinst að 47 skotmörkum eins og hellum og vöruskemmum og að 59 vígamenn liggi í valnum eftir loftárásirnar í nótt en leiðtogar YPG segja tólf óbreytta borgara hafa fallið.