Kveðið er á um innviðagjaldið í frumvarpi starfsstjórnarinnar um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld sem gengur alla jafna undir nafninu bandormurinn. Fram að þessu hefur gistináttagjald verið innheimt af farþegum skemmtiferðaskipa.
Gjaldið á að nema 2.500 krónum fyrir hverja selda gistinótt fyrir hvern farþega skemmtiferðaskipa í millilandasiglingum á meðan þau dvelja við landið. Tekjur af innviðagjaldinu eiga að nema 1,9 milljörðum króna á næsta ári, þar af 1,5 milljörðum umfram það sem hefði ella orðið af erlendu skipunum.
Tilgangurinn með breytingunni er sagður að jafna samkeppnisstöðu innlendra og erlendra fyrirtækja í ferðaþjónustu eins og mögulegt sé í ljósi þess að skemmtiferðaskipin hafi greitt takmörkuð gjöld hér á landi til þessa.
Rekstraraðilar skemmtiferðaskipa í innanlandssiglinum greiða áfram gistináttaskatt fyrir hvern farþega fyrir hvern byrjaðan sólarhring í skipi. Það er breyting frá núverandi fyrirkomulagi en gistináttaskatturinn hefur verið lagður á hverja selda gistináttaeiningu. Með þessu er sagt komið til móts við sjónarmið rekstraraðila um að einfaldara sé að rukka gjaldið af hverjum farþega þar sem sala á ferðum miðist við farþega en ekki klefa eða káetu.
Þá er kveðið á um að gistináttaskattur myndi ekki lengur gjaldstofn til virðisaukaskatts.