Að minnsta kosti tíu börn eru með einkenni að sögn Guðrúnar Aspelund, sóttvarnalæknis og e.coli smit hefur verið staðfest hjá þremur þeirra. Börnin eru á leikskólanum Mánagarði sem er rekinn af Félagsstofnun stúdenta við Eggertsgötu í Vesturbæ Reykjavíkur. Um 120 börn eru á leikskólanum.
Sóttvarnalæknir fundar nú með stýrihópi vegna málsins. „Þar koma saman aðilar sem hafa með slíkar rannsóknir að gera og taka ákvarðanir í framhaldinu,“ sagði Guðrún í morgun fyrir fundinn.
Um sé að ræða bakteríu sem getur valdið alvarlegri meltingarsýkingu og getur hún verið sérstaklega hættuleg börnum. „Oft gengur þetta yfir að sjálfu sér. Það á ekki að nota nein sýklalyf gegn þessu. Þetta er matartengd sýking yfirleitt. Þetta er svokölluð súna, þannig að þessi baktería kemur upprunalega frá dýrum. Getur komið beint frá dýrum en oftast er þetta matartengt. Þetta getur líka verið í vatni, en er helst í nautakjöti, salati. Þetta er því spurning um hreinlæti og meðhöndlun matar,“ segir Guðrún Aspelund.