Meðal þeirra sem mótmæla eru kennarar í Hagaskóla sem lögðu niður störf á öðrum tímanum í dag til að mæta á mótmælin. Vegna þessa féll kennsla í síðustu tímum dagsins í skólanum niður að því er fram kom í tölvupósti til forráðamanna barna í skólanum.

„Einar er ekki bara best að kjósa nýjan borgarstjóra?“ stóð á einu skilti sem kennarar mættu með í Ráðhús Reykjavíkur. Dagur B. Eggertsson, forseti borgarstjórnar, ræddi við kennara en Einar Þorsteinsson borgarstjóri er staddur á ráðstefnu í Mexíkó.
„Mér finnst einhvern veginn öll tölfræði, til dæmis bara um skólana okkar, benda til þess að við séum að gera eitthvað algerlega vitlaust. Að kennararnir séu að biðja um það að fá að vera minna með börnum, en eru samt veikari en nokkru sinni fyrr. Kenna minna og með fleiri undirbúningstíma,“ voru ummæli Einars á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í síðustu viku sem féllu ekki í góðan jarðveg hjá kennarastéttinni.

Í aðsendri grein á Vísi í gær sagði borgarstjóri að það væri einfaldlega hans skoðun að tímabært væri og nauðsynlegt að umræða fari fram um menntun og skólakerfið með opnum huga.
„Í óundirbúinni ræðu minni, sem var hluti af stærri umræðu um fjármál sveitarfélaga, benti ég á að veikindahlutfall kennara er um 8-9%. Það er alvarlegt að svo margir kennarar glími við veikindi til lengri eða skemmri tíma en lýsir því álagi sem starfinu og starfsaðstæðum fylgja. Slík fjarvera fagfólks kostar sveitarfélög mikla fjármuni og dregur verulega úr skilvirkni skólastarfsins. Starf kennara er eitt það mikilvægasta í okkar samfélagi og það þarf að standa vörð um heilsufar kennara með tiltækum ráðum,“ segir Einar.Kennarar standa í kjarabaráttu og hafa boðað til verkfalls í níu skólum í lok október. Samninganefndir funda með sveitarfélögunum í húsakynnum Ríkissáttasemjara í dag.
