Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um Carbon Recycling, eða CRI, en tólf ár eru frá því fyrirtækið gangsetti verksmiðju sína í Svartsengi. Henni var ætlað að sýna fram á að þessi íslenska uppfinning virkaði til að fanga koltvísýring frá iðnaði og breyta honum í metanól. Einkaleyfin eru orðin fimmtán talsins.

„Þetta er íslenskt hugvit og þetta byrjaði allt hér. Við erum búin að vera að síðan 2006,“ segir Kristjana M. Kristjánsdóttir, viðskiptastjóri Carbon Recycling.
Fyrsti aðilinn erlendis til að kaupa tæknina var í Þýskalandi en síðan bættust Svíþjóð og Noregur á landakort CRI sem og tveir aðilar í Kína. Og núna hefur kínversk endurvinnslustöð bæst í hópinn.
„Þetta er einn af okkar stærstu samningum til þessa þar sem við erum búin að hefja hönnun á 170 þúsund tonna verksmiðju,“ segir Kristjana.

Þetta er verkefni sem fjörutíu starfsmenn á skrifstofunni í Kópavogi sinna, efnaverkfræðingar, rafmagnsverkfræðingar og vélaverkfræðingar, og skapar umtalsverðar gjaldeyrisstekjur. Kristjana segist þó ekki vilja gefa upp beinar tölur.
„En almennt þá ertu að tala um tölur sem velta á milljörðum, fyrir hvern samning sem við lokum.“
Og það er hrópað á þessa tækni utan úr heimi. Kristjana segir yfir 150 verkefni í þróun á mismunandi stigum. Stefnt er að því að nýjasta verksmiðjan í Kína verði gangsett á næsta ári.

„Þessi verksmiðja er að nýta útblástur úr lífrænum úrgangi og vindorku. Og þetta er eitthvað sem við myndum algerlega vilja sjá hérna heima á Íslandi líka,“ segir hún.
Kínverjar hyggjast meðal annars nýta rafeldsneytið á flota flutningaskipa en Kristjana segir tæknina einnig geta nýst til orkuskipta í flugi.
„Og í rauninni þær verksmiðjur sem við höfum gert nú þegar, og þessi núna, þetta eru næstum því 400 þúsund tonn. Og þetta væri ígildi þess að geta veitt öllum skipaflotanum á Íslandi eldsneyti árlega.“
-Þannig að bara með þessari aðferð gætum við leyst loftslagsvanda Íslendinga, bara nánast einn, tveir og þrír?
„Algerlega. Við höfum bæði orkuna og afurðirnar og tæknina til staðar nú þegar. Og bara við spyrjum: Eftir hverju erum við að bíða?“ segir viðskiptastjóri Carbon Recycling.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: