Innlent

Ungur drengur fékk púður úr flugeldi í augað

Agnar Már Másson skrifar
Púðrið skaust á bak við gleraugu drengsins.
Púðrið skaust á bak við gleraugu drengsins. Aðsend

Flugeldapúður skaust í auga á ungum dreng þegar flugeldasýning við opnun Fjarðarins í Hafnarfirði stóð yfir. Faðir drengsins segir að viðburðarhaldarar hefðu mátt hátta öryggismálum betur þar sem áhorfendur voru nokkuð nálægt sprengjusvæðinu. Heilsa drengsins virðist góð en hann lýsir sviða í auganu, að sögn föðurins.

Óskar Eiríksson lýsir því í samtali við Vísi að 11 ára tvíburasynir hans, Óliver og James, hafi að horfa á flugeldasýninguna sem haldin var í tilefni þess að fjöldi nýrra verslana væri að opna í Firðinum, verslunarmiðstöð Hafnarfjarðar, sem nú hefur verið stækkuð.

En skyndilega fann James fyrir einhverju lenda í auganu á sér. Undir lokin á myndskeiði sem bróðir hans tók upp af flugeldasýningunni má heyra drenginn öskra.

„Eitthvað rautt púðurdæmi skýst inn í og bara hittir akkúrat í augað á honum, bak við gleraugun,“ rekur Óskar söguna.

„Gleraugun hans fóru af honum og það var rautt púður inni í þeim,“ bætir hann við.

James hafi orðið rauður í auganu og fundið fyrir sviða en Óskar segir að drengurinn lýsi ekki eins miklum verkjum nú. Fjölskyldan muni þó láta lækni kíkja á augað á morgun. Drengurinn sé sleginn yfir atvikinu.

Óskar tekur fram að honum þyki flugeldasýningin flott framtak en bendir á að flugeldunum hafi verið skotið upp afar nálægt áhorfendum, sem hafi staðið hinum megin við götuna. Hann segist vona að einhver lærdómur verði dreginn af atvikinu.

Ekki náðist í Guðmund Bjarna Harðarson framkvæmdastjóra Fjarðarins við gerð fréttarinnar. Margt var um manninn í Firðinum í dag vegna opnunarhátíðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×