Í Kompás sem sýndur var á Stöð 2 í gærkvöld var fjallað um sprengingu í ásókn þyngdarstjórnunarlyfja á borð við Ozempic og Wegovy. Rætt var við lækna um þeirra skoðun á lyfjunum og konu sem hefur sprautað sig með þeim í von um að léttast.
Finnst frjálslega farið með lyfin
Hvaða læknir sem er má ávísa lyfjunum og óttast Erla Gerður Sveinsdóttir, læknir að aðgengi að þeim sé of auðvelt og að margir séu á lyfjunum sem eigi ekki að vera á þeim.
Aðalsteinn Arnarson, skurðlæknir á Klíníkinni, segir skynsamlegt að settar verði vinnureglur um ávísun lyfjanna.
„Ég held að á meðan að lyfin eru ný og meðan okkur skortir langtíma rannsóknir til að sjá hvert öryggi lyfjanna er varðandi alvarlega fylgikvilla þá held ég að það sé mjög skynsamlegt að búa til einhvers konar vinnureglur eða ramma varðandi hvenær þessi meðferð er ráðlögð og hvenær ekki.“
Vonast til að lyfjaflokkurinn sé kominn til að vera
Ýmsar rannsóknir eru til um lyfin sem séu þó ný og segir Aðalsteinn skorta langtímarannsóknir á áhrifum þeirra.
„Við höfum alveg séð önnur lyf koma og fara. Og það hefur snúist annað hvort um skort á virkni eða hreinlega alvarlegar aukaverkanir. Þau lyf voru kannski á markaði í tíu ár áður en fólk fór að skilja að það væru aukaverkanir þarna. Vonandi er þetta nýr lyfjaflokkur sem er öruggari og minni aukaverkanir en það breytir ekki því að við erum enn í einhvers konar tilraunarfasa þar sem það mun taka nokkur ár í viðbót áður en við fáum góðan skilning á bæði langtímaávinningi og líka mögulegum aukaverkunum.“