„Þetta hefur þá þýðingu að nú hefur fólk allt í einu áhuga á þessu húsi. Fólk hjólar og keyrir hérna framhjá og fáir vita hvað hér er. Það er fáni og allt á íslensku,“ segir Halla. Eftir heimsóknina gefist tækifæri á að sýna almenningi húsið og fyrir hvað það stendur.

Í heimsókn sinni fá konungs- og forsetahjónin kynningu frá íslenskum konum í danska atvinnulífinu. Eftir það fá hjónin svo kynningu á heimili Ingibjargar og Jóns.
„Það er þess vegna sem við erum í þessu húsi. Hér bjó Jón Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir,“ segir Halla.

Á meðan þau eru uppi verður salnum breytt í veitingastað og gestum svo boðið upp á danskan „frokost“ þar sem verður boðið upp á smörrebröd með íslenskum lax og lambakjöti. Eftir það verður boðið upp á kaffi og makkarónur úr bakaríi sem rekið er af Íslendingum í Kaupmannahöfn. Að því loknu kemur karlakórinn Hafnarbræður og syngur eitt lag.


Fyrsta ríkisheimsóknin
Ríkisheimsókn Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, og Björns Skúlasonar eiginmanns hennar til Danmerkur hófst í dag. Forsetahjónin komu siglandi að gömlu tollbryggjunni í Kaupmannahöfn klukkan tíu að staðartíma þar sem konungshjónin, Friðrik X og kona hans Mary, tóku á móti þeim.
Almenningi var boðið að fylgjast með komu þeirra við bryggjuna. Eftir móttökuna á bryggjunni fara þau með hestvagni til formlegrar móttökuathafnar við Amalíuborgarhöll, með stuttri viðkomu í borgarvirkinu, Kastellet, þar sem blóm verða lögð að minnisvarða.