Handbolti

Serbarnir fá aldrei aftur að dæma

Sindri Sverrisson skrifar
Aleksander Pandzic og Ivan Mosorinski dæmdu fjölda alþjóðlegra leikja en eru grunaðir um hagræðingu úrslita. Þeir dæma ekki fleiri handboltaleiki.
Aleksander Pandzic og Ivan Mosorinski dæmdu fjölda alþjóðlegra leikja en eru grunaðir um hagræðingu úrslita. Þeir dæma ekki fleiri handboltaleiki. Twitter

Serbnesku dómararnir Aleksander Pandzic og Ivan Mosorinski, sem grunaðir hafa verið um hagræðingu úrslita, fá ekki að dæma fleiri handboltaleiki.

Þetta er ákvörðun framkvæmdanefndar evrópska handboltasambandsins, EHF, en það er TV 2 í Danmörku sem greinir frá þessu.

Þar segir að þolinmæði EHF gagnvart dómurunum hafi verið á þrotum en þeir eru efstir á lista yfir dómara sem grunaðir eru um hagræðingu úrslita, í skýrslu EHF sem TV 2 hefur áður greint frá og fjallað um í heimildamynd.

Fyrir fáeinum vikum síðan sektaði dómstóll EHF dómarana tvo um 2.000 evrur á mann, eða um 300.000 krónur, fyrir skort á stuðningi við rannsókn, en þeir neituðu að mæta til yfirheyrslu í höfuðstöðvar EHF í Vín í Austurríki. Hins vegar hlutu þeir á sama tíma ekki dóm varðandi mögulega hagræðingu úrslita.

Engu að síður hefur EHF nú tilkynnt að þeir Pandzic og Mosorinski muni ekki dæma fleiri leiki í alþjóðlegum handbolta.

Af átta dómarapörum höfðu þeir tveir verið mest áberandi í greiningu Sportradar frá árinu 2018, á grunsamlegum leikjum. Af 26 leikjum á tímabilinu september 2016 til nóvember 2017, sem vöktu grunsemdir, þá dæmdu Serbarnir átta þeirra. Þeir fengu þó áfram að dæma leiki og nýjasta dæmið um aðvörun vegna leiks sem þeir dæmdu, þar sem veðmál á leikinn vöktu grunsemdir hjá Sportradar, er frá síðasta ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×