Eftir vaxtabreytinguna í dag verða breytilegir vextir á verðtryggðum íbúðalánum Landsbankans fjögur prósent á grunnlánum og fimm prósent á viðbótarlánum. Arion banki og Íslandsbanki hækkuðu sína vexti um 0,4 til 0,5 prósentustig í síðustu viku.
Fastir vextir á verðtryggðum íbúðalánum Landsbankans til sextíu mánaða hækka um hálft prósentustig í dag og kjörvextir verðtryggðra útlána sömuleiðis.
Fastir vextir á nýjum óverðtryggðum lánum, bæði vegna íbúða og bíla- og tækjafjármögnunar, lækka um 0,2 stig.
Á sama tíma hækka breytilegir vextir á verðtryggðum innlánum um 0,25 stig.
Hvorki verða breytingar á hámarkslánstíma nýrra íbúðalána né hámarksveðhlutfalli þeirra, að því er kemur fram í tilkynningu á vef Landsbankans. Engar breytingar verða heldur á framboði verðtryggðra lána með jöfnum afborgunum.
Breytingarnar taka gildi fyrir ný lán í dag en á eldri lánum í samræmi við tilkynningar sem viðskiptavinir bankans fá sendar.