Hann segir allt líta út fyrir að fjöldi útkalla verði meiri en í fyrra en þá var slegið met í fjölda útkalla þegar flugdeildin var kölluð út 314 sinnum yfir árið, þar af þyrlusveitin 303 sinnum.
„Það eru þessi fjögur þyrluútköll. Það er töluvert mikið á einum sólarhring. Svo ofan á það bætist auðvitað það sem var á Breiðamerkurjökli,“ segir Ásgeir og að þessi fjöldi sé í takt við það sem hafi verið í sumar.
Í maí, júní og júlí hafi þyrlusveitin sinnt fleiri útköllum en á sama tíma í fyrra.
„Ef fram heldur sem horfir gætum við séð fram á enn eitt metið í fjölda útkalla þyrlusveitarinnar,“ segir hann og að það liggi fyrir við lok árs.
Ásgeir segir sumarið mesta álagspunktinn og alla mönnun miða við það. Það séu almennt tvær þyrlur og áhafnir til taks. Það hafi verið þannig í dag og í gær. Þá hafi önnur þyrlan verið á Breiðamerkurjökli og hin að sinna útkalli á Hvammstanga sem dæmi.