Sem dæmi um aukna bjartsýni eru ummæli Joe Biden Bandaríkjaforseta í vikunni um að aðilar hefðu aldrei verið jafn nálægt því að ná samkomulagi um vopnahlé frá því stríð hófst. Blinken heimsækir Ísrael í dag og fundar með Netanjahú forsætisráðherra landsins. Þetta er hans níunda heimsókn frá því stríð hófst.
„Það sem við höfum gert er að brúa bil þannig að við teljum raunverulegan möguleika á því að samkomulag náist og við getum horft fram á veginn,“ var haft eftir embættismanni Biden í gær.
Sami Abu Zuhri talsmaður Hamas-samtakanna segir þessar hugmyndir hins vegar óraunhæfar með öllu.
„Að segja að við séum að nálgast samkomulag er blekking. Við erum ekki að horfa fram á samkomulag eð viðræður, heldur öllu heldur tilmæli frá valdamiklum bandarískum aðilum,“ er haft eftir Zhuri í frétt AFP.
Heimsókn Blinken kemur á sama tíma og óttast er stigmögnun átaka á svæðinu. Íranir hafa til að mynda heitið því að hefna fyrir morð á háttsettum Hamas-meðlimi, Ismail Haniyeh, í Tehran 31. júlí. Yfirvöld í Washington hafa ítrekað varað Írani við því að hefndaraðgerðir hefðu alvarlegar afleiðingar í för með sér.