Halldór, sem hét fullu nafni Halldór Snorri Bragason, hefði orðið 68 ára í nóvember. Hljómsveitin Vinir Dóra var kennd við Halldór en Dóri spilaði líka með sveitum á borð við Landsliðið, The Riot, Þrælarnir, Blúsboltarnir og Big nós band.
Hann var í fararbroddi í blússenunni um árabil og var heiðraður árið 2013 þegar hann var kjörinn heiðursfélagi Blúshátíðar í Reykjavík. Halldór kom endurtekið að uppsetningu hátíðarinnar.

Halldór spilaði á gítar og söng reglulega á tónleikum hér heima en sömuleiðis erlendis. Árið 2009 spilaði hann á blúshátíð í Arkansas í Bandaríkjunum með stjörnum á borð við Pinetop Perkins, Willi Big Eyes, Bob Margolin og Bob Stroger.
„Það var rosalegur heiður að fá að gera þetta,“ sagði Halldór um ferðalagið í viðtali við Fréttablaðið árið 2009.
Halldór hafði undanfarin tvö ár háð hetjulega baráttu við krabbamein. Hann sótti styrk bæði sálarlega og líkamlega hjá Ljósinu, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur. Fjölskylda og vinir Dóra hlaupa til styrktar Ljósinu í Reykjavíkurmaraþoninu.
Halldór lætur eftir sig uppkominn son og sonardóttur.