Skoðun

Lygamörður

Sigurgeir Pálsson skrifar

Lyga-Mörður var orðið sem kom í huga minn eftir að hafa hlustað á Guðna Ágústsson í viðtali við Jóhönnu Vilhjálmsdóttur í síðdegisútvarpi Bylgjunnar 15. júlí síðastliðinn. Mörður Valgarðsson kemur mikið við sögu í Njáls sögu. Ekki var allt heilagur sannleikur sem hann lét sér um munn fara. Síðar varð lygamörður samheiti um þann sem lýgur miklu og er undirförull. (Heimild Árnastofnun). Viðtalið barst að tilboði KS í allt hlutafé í Kjarnafæði Norðlenska og eignahlut Þórarins Inga alþingismanns i Búsæld. En Búsæld er einkahlutafélag sem á 43% í Kjarnafæði Norðlenska. Þá sagði Guðni um Þórarin. „Hann hafi orðið að leggja í hlutafé svona 10-20% af afurðaverði í afurðastöðinni sinni til að geyma það svo fyrirtækið gangi.“ Svo mörg voru þau orð.

Búsæld er einkahlutafélag og var stofnað 2004 af bændum á Norðurlandi eystra, Austurlandi og víðar til kaupa hlut í Norðlenska ásamt KEA. Síðar keypti Búsæld hlut KEA í Norðlenska og átti þá Norðlenska 100%. Til að eignast afurðastöðina Norðlenska voru tekin lán. Lánin voru borguð með hlutafjárframlagi bænda. Upphaflega voru tekin um 4% af afurðaverði og greitt inn í Búsæld.Svo var það lækkað í 2% og undanfarið hefur þetta verið 1%. Í dag er Búsæld skuldlaust félag. En að það hafi verið 10-20% af afurðaverði í afurðastöð er haugalygi og Guðna til háborinnar skammar að halda slíku bulli fram. Það hefur almennt verið skoðun bænda að æskilegt væri að afurðastöðvar væru í eigu bænda, gjarnan í samvinnufélögum framleiðenda. Kaupfélag Skagfirðinga er ekki framleiðendafélag bænda heldur blandað samvinnufélag þar sem bændur eru líklega aðeins 10-20% af félagsmönnum. Þannig að bændur í Skagafirði eiga ekkert meira í afurðastöðvum þar heldur en aðrir félagsmenn.

Höfundur er fyrrverandi bóndi og einn af stofnfélögum Búsældar.




Skoðun

Sjá meira


×