Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá Héraðssaksóknara, í samtali við Vísi.
Skipaði stýrimanninum að sigla á brott
Í ákæru á hendur mönnunum, Eduard Dektyarev sem skiptstjóra flutningaskipsins Longdawn, og Alexander Vasilyev sem 2. stýrimanni skipsins, segir að þeir hafi verið ákærðir fyrir hættubrot og brot gegn lífi og líkama og siglingalögum.
Þeir hafi aðfaranótt fimmtudagsins 16. maí 2024, í kjölfar áreksturs flutningaskipsins og fiskiskipsins Höddu HF-52, látið farast fyrir að koma skipstjóra Höddu HF til hjálpar, þar sem hann var staddur í lífsháska, um 6,5 sjómílur norðvestur af Garðskaga, heldur, samkvæmt fyrirmælum Eduard, haldið för flutningaskipsins áfram, þrátt fyrir að Alexander hafi upplýst Eduard um áreksturinn og að hann teldi sig hafa séð Höddu HF-52 vera að sökkva.
Vinur til áratuga fiskaði skipstjórann úr sjónum
Við áreksturinn hafi komið gat á stjórnborðshlið og kjöl Höddu HF-52 og hvolft bátnum, sem maraði hálfur í kafi.
Skipstjóranum hafi tekist að koma sér út úr sökkvandi bátnum og svamlað þar í sjónum uns fiskiskipið Gola GK-41 kom að og skipverja þess tókst að bjarga úr skipstjóranum úr sjónum.
Með því að skilja skipstjórann eftir í sjónum hafi mennirnir stofnað lífi hans og heilsu í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt.
Drukkinn og undir áhrifum fíkniefna
Þá segir að skipstjórinn Eduard hafi einnig verið ákærður fyrir brot á siglingalögum með því að hafa í ofangreint sinn, sem skipstjóri flutningaskipsins Longdawn, verið undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna við stjórn skipsins og þannig óhæfur til að sinna skipstjórninni með fullnægjandi hætti, en hann hafi meðal annars gefið undirmanni sínum Alexander fyrirmæli um hvernig haga skyldi för skipsins
Að sögn Karls Inga játaði hann það brot einnig skýlaust og því verði farið með málið sem játningarmál og það talið sannað.
Þess er krafist að mennirnir verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess jafnframt krafist að þeir verði sviptir rétti til skipstjórnar.