Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá Héraðssaksóknara, í samtali við Vísi. Ákæran hefur ekki verið birt mönnunum og því getur Karl Ingi ekki greint frá efni hennar. Mbl greindi fyrst frá ákærunni.
Grunaðir um að hafa skilið mann eftir í hættu
Aðfaranótt 16. maí hvolfdi strandveiðibátnum Höddu HF utan við Garðskaga með þeim afleiðingum að einn lenti í sjónum. Skipstjóri á nálægum strandveiðibáti, félagi mannsins til áratuga, náði að veiða hann upp úr sjónum og mildi þykir að ekki fór verr.
Fljótlega kom upp grunur um að bátnum hefði hvolft þegar árekstur varð milli bátsins og fraktskipsins Longdawn. Skipstjóri Longdawn og tveir stýrimenn voru handteknir og vistaðir í fangaklefa í Vestmannaeyjum. Öðrum stýrimanninum var sleppt úr haldi og síðar hinum mönnunum tveimur. Skipstjórinn og stýrimaðurinn voru þó úrskurðaðir í gæsluvarðhald.
Mennirnir eru grunaðir um að hafa yfirgefið mann í sjávarháska, sem getur varðað allt að átta ára fangelsi.
Með áfengi í blóðinu
Við handtöku stýrimannsins var tekið öndunarsýni af honum og það reyndist jákvætt fyrir áfengi. Þá reyndist sýni einnig jákvætt fyrir áhrifum kannabiss og slævandi lyfja.