„Þetta var hræðilegt. Ég gat ekki andað. Ég var að reyna að verja [ barnið mitt innsk. Blm.]. Ég var að reyna að verja hann með klút svo hann gæti andað,“ er haft eftir Svitlana Kravchenko í frétt Reuters. Þar segir að illa áttaðir og grátandi foreldrar hafi ráfað um og reynt að þrífa eftir sprenginguna.
Forseti landsins, Volodomír Selenskíj, var í Póllandi þegar árásin átti sér stað en hann er á leið til Washington þar sem fer fram NATO ráðstefna í vikunni þar sem sérstök áhersla verður lögð á að fjalla um stríðið í Úkraínu.
Selenskíj sagði 37 látin, þar af þrjú börn. Auk þess væru 170 særð. Í frétt Reuters segir að fjöldi látinna hafi samanlagt verið talinn 41 um land allt. Um 27 létust í Kænugarði og 11 í Dnipropetrovsk héraði. Þá létust þrjú í Pokrovsk héraði.
Á fundi með forseta Póllands, Donald Tusk, kallaði Selenskíj, eftir viðbrögðum frá vestrænum bandamönnum. Hann sagði að Úkraína myndi svara þessum árásum en að stóra spurningin væri hvort að bandamennirnir myndu gera það líka.
Á Telegram sagði Selenskíj auk þess að um 100 byggingar væru skemmdar þar á meðal barnaspítalinn og fæðingarstofa í miðborg Kænugarðs, heimili og leikskólar.
„Rússnesku hryðjuverkamennirnir verða að svara fyrir þetta,“ sagði hann og að hafa áhyggjur stöðvi ekki hryllinginn. Samúðarkveðjur séu ekki vopn. Ríkisstjórn landsins hefur lýst yfir þjóðarsorg í dag vegna árásarinnar. Þá yfir úkraínsk yfirvöld sagt árásina gott dæmi um það af hverju þarf að styrkja loftvarnir landsins enn frekar. Af 38 loftskeytum voru 30 skotin niður.

Borgarstjóri Kænugarðs, Vitali Klitschko, sagði árásina eina þá stærstu frá því að stríðið hófst og að víða í borginni séu skemmdir. Heilbrigðisyfirvöld sögðu fimm deildir barnaspítalans skemmdar og að flytja hefði þurft börn annað.
Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu í Bandaríkjunum sagði Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, að árásin væri hræðileg áminning um grimmd Rússa. Hann sagði enn fremur að á NATO fundinum yrði tilkynnt um nýjar ráðstafanir fyrir loftvarnir Úkraínu.
Volker Türk, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, fordæmdi einnig árásina í gær og að meðal þeirra sem létust hefðu verið „veikustu börn Úkraínu“.
Rússnesk yfirvöld sögðu eftir árásirnar að þeim hefðu verið beint að flugvöllum og öryggismiðstöðvum. Þau hafa ítrekað neitað að þau skjóti viljandi að almennum borgurum og byggingum þar sem almennir borgarar eru en þúsundir almennir borgarar hafa látist í árásunum frá því að stríðið hófst 2022.