Kona sem missti barn sitt án samráðs á Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins árið 1973 fór fram á í fréttum Stöðvar 2 í gær að Reykjavíkurborg og opinberir aðilar sem komu að hennar máli á sínum tíma biðji sig og aðra aðstandendur barna sem voru í svipaðri stöðu, afsökunar.
Svartur blettur í sögu Reykjavíkurborgar
Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir að afsökunarbeiðni sem borgarstjórn sendi út í haust í kjölfar niðurstöðu Vöggustofunefndar gildi líka um aðstandendur barnanna sem voru vistuð á Vöggustofunni að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins.
„Niðurstaða vöggustofunefndar sem rannsakaði málið var ótvíræð. Þetta er svartur blettur í sögu Reykjavíkurborgar. Borgarstjórn ályktaði einróma 17. október sl. og bað bæði börnin sem voru vistuð á vöggustofum og fjölskyldur þeirra, mæður og feður afsökunar á þeirri illu meðferð sem var lýst í skýrslu vöggustofunefndarinnar. Ég ítreka hér með afsökunarbeiðni borgarstjórnarstjórnar til allra þeirra sem málið snertir,“ segir Einar.
Vonar að Alþingi samþykki sanngirnisbætur
Borgarstjórn tók einnig undir með vöggustofunefnd um hugsanlegar skaðabótagreiðslur til þeirra sem voru vistaðir á vöggustofum sem börn. Frumvarp um sanngirnisbætur hefur hins vegar farið marga hringi hjá Allsherjar- og menntamálanefnd síðustu mánuði. Einar kveður mikilvægt að málið nái fram að ganga.
„Ég vona að þetta mál fái þann farsæla endi að þeir einstaklingar sem um ræðir fái sanngjarnar bætur. Ég tel mikilvægt að Alþingi ákveði almennt verklag um hvernig sanngirnisbætur skuli greiddar. Það þarf líka að vera til staðar hvati fyrir sveitarfélög að rannsaka mál þar sem grunur kemur upp um illa meðferð svo þau þurfi ekki að óttast að slíkum rannsóknum og niðurstöðum þeirra fylgi mikil fjárútlát. Þetta er einfaldlega þannig að við verðum að hafa kjark til að horfast í augu við söguna,“ segir Einar.
Aðstandendur geti óskað eftir sálfræðiaðstoð
Borgarráð ákvað einnig síðasta haust að bjóða fólki sem var vistað sem börn á vöggustofum sálfræðiaðstoð.
Fréttastofa óskaði eftir svörum frá borginni um hversu margir hefði nýtt sér þessa aðstoð og hvort hún væri einnig í boði fyrir aðstandendur barnanna. Í svari borgarinnar kemur fram að öll vöggustofubörn sem höfðu samband og féllu innan samþykktar hafi fengið sálfræðiþjónustu, alls 86 manns. Engir foreldrar hafi haft samband og óskað eftir aðstoð en það sé stefna borgarinnar að vel verði tekið í allar beiðnir um þjónustu tengda þessu máli. Þá er enn hægt að óska eftir sálfræðiaðstoð samkvæmt svari borgarinnar.