Erlent

Segir ekki af sér þrátt fyrir njósnir að­stoðar­mannsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Maximilian Krah ræddi við fréttamenn eftir fund með forystu AfD í dag. Niðurstaðan er að hann verður áfram aðalframbjóðandinn til Evrópuþingsins.
Maximilian Krah ræddi við fréttamenn eftir fund með forystu AfD í dag. Niðurstaðan er að hann verður áfram aðalframbjóðandinn til Evrópuþingsins. AP/Michael Kappeler/DPA

Leiðtogi þýska hægrijaðarflokksins Valkosts fyrir Þýskaland (AfD) ætlar ekki að segja af sér þrátt fyrir að aðstoðarmaður hans sé sakaður um að njósna fyrir Kina. Hann hafi sjálfur ekkert gert af sér.

Aðstoðarmaður Maximilians Krah, Evrópuþingmanns AfD, var handtekinn í Dresden á mánudag. Hann er sakaður um að hafa komið upplýsingum um störf Evrópuþingsins í hendur kínversku leyniþjónustunnar og að njósna um kínverska andófsmenn í Þýskalandi.

Krah, sem er helsti frambjóðandi AfD fyrir Evrópuþingskosningarnar í júní, sagðist fyrst hafa frétt af handtökunni í fjölmiðlum. Aðstoðarmaðurinn, sem heitir Jian Guo, verði rekinn. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald í gær, að sögn AP-fréttastofunnar.

„Ég er og verð áfram aðalframbjóðandinn. Þetta núna spurning um að einbeita sér að kosningabaráttunni um Evrópumál aftur og að leggja þetta ónotalega mál til hliðar,“ sagði Krah í dag.

Reuters-fréttastofan segir að handtakan sé áfall fyrir AfD sem er orðinn næststærsti flokkurinn í skoðanakönnunum fyrir Evrópu- og sveitarstjórnarkosningar í ár. Flokkurinn hefur þegar legið undir ámæli fyrir að vera hallur undir rússnesk stjórnvöld.

Krah verður ekki viðstaddur opnun kosningabaráttu AfD í Donaueschingen á laugardag vegna málsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×