Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni. Krafan var lögð fram fyrr í dag í Héraðsdómi Suðurlands og boðaði dómari til uppkvaðningar úrskurðar síðdegis í dag.
Tveir aðilanna voru úrskurðaðir til 30. apríl næstkomandi og tveir til 24. apríl næstkomandi. Allir voru aðilarnir úrskurðaðir á grundvelli rannsóknarhagsmuna og sæta einangrun. Rannsókn á málinu heldur áfram að sögn lögreglu en engar frekar upplýsingar verða veittar að svo stöddu.
Lögreglunni á Suðurlandi barst um tvöleytið í gær tilkynning um meðvitundarlausan mann í sumarhúsi í uppsveitum Árnessýslu. Hann var úrskurðaður látinn skömmu eftir komu viðbragðsaðila á vettvang.
Fram hefur komið að Lögreglan á Suðurlandi fari fyrir rannsókninni, en sé með stuðning frá tæknideild lögreglu.
Samkvæmt heimildum fréttastofu er umrædd sumarbústaðabyggð í Kiðjabergi. Heimildir herma einnig að allir mennirnir, bæði hinir handteknu og hinn látni, eru frá Litháen.