Frumvarp um kaup ríkissjóðs á íbúðarhúsnæði í Grindavík varð að lögum í nótt. Lögin gera Grindvíkingum kleift að losna undan þeirri áhættu sem fylgir eignarhaldi íbúðarhúsnæðis í bænum vegna jarðhræringanna á svæðinu.
Alþingi samþykkti frumvarpið skömmu eftir miðnætti og segir Ásrún Helga Kristinsdóttir forseti bæjarstjórnar Grindavíkur það mikið ánægjuefni.
„Við fögnum því að þetta frumvarpið sé samþykkt og að það hafi verið samþykkt með þessari góðu þverpólitísku samvinnu hratt og örugglega. Þetta kemur náttúrulega til með að leysa mjög stóran hóp úr óvissu en auðvitað eru þarna jaðartilfelli og einhverjir sem falla kannski ekki vel að þessu varðandi virði eignar. Þannig við kannski treystum því að það verði horft svona jákvæðum augum á málefni þeirra.“
Hún segir þessi jaðartilfelli til að mynda vera þar sem fasteignamat eignanna sé hærra en brunabótamat en sú sé staðan í nokkrum tilfellum. Við því þurfi að bregðast sérstaklega en það sé ekki gert í frumvarpinu. Þá þurfi í framhaldinu að huga að fleiri þáttum.
„Næsta skref er óumdeilanlegt að endurskoða verði kannski gjaldheimtu og stimpilgjöld til dæmis á þá íbúa sem þurfa að taka ný lán í ljósi þess að veðflutningar eru ekki heimilaðir í þessu frumvarpi.“
Í frumvarpinu felst meðal annars að Grindvíkingar hafa tíma til áramóta til að ákveða sig hvort þeir vilji selja húsnæði sitt.
„Við erum líka ánægð með það að þessi frestur hafi verið framlengdur út árið og mikilvægt að fólk þurfi ekki að taka svona stórar ákvarðanir í tímapressu.“
Kalt vatn byrjaði að streyma á ný í Grindavíkurhöfn í gær eftir langt hlé. Þá var líka landað í bænum í gær í fyrsta sinn í sex vikur og þeim fer fjölgandi fyrirtækjunum við höfnina byrjað hafa starfsemi á ný.
„Það er bara mjög notalegt að sjá það og sjá gleðina á bryggjunni. Þetta gefur okkur byr undir báða vængi en staðan er samt sem áður sú að við bíðum bara eftir næsta gosi og við verðum bara að sætta okkur við þá stöðu. En við ætlum okkur að komast í gegnum þessar hamfarir og þá er til dæmis þetta skref með fyrirtækin virkilega mikilvægt fyrir okkur.“