Áslaug Arna kynnir á ríkisstjórnarfundi í dag niðurstöður fýsileikakönnunar á sameiningu Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum en mælt var með því í henni að skólarnir myndu sameinast.
Háskólinn á Hólum yrði þá sér háskólasvæði [e. Campus] en myndi starfa undir Háskóla Íslands. Áslaug Arna sagði þetta þekkjast erlendis. Það sé einn skóli sem fari með yfirstjórn en að það séu sjálfstæð háskólasvæði þar sem er hægt að kenna einhver ákveðin svið eða ákveðið nám. Hún sagði Háskólann á Hólum sjá tækifæri í sínu námi tengt atvinnulífinu, eins og fiskeldi eða ferðaþjónustu.
Það væri hægt að nýta ýmsar greinar HÍ eins og matvælafræði og lögfræði í það nám sem þegar er kennt á Hólum.
Stór háskóli á landsbyggð
Í þættinum ræddi hún einnig sameiningu háskólanna á Akureyri og Bifröst. Hún sagðist hafa unnið að betra samstarfi háskóla á Íslandi til að bæta gæði þeirra og að upp úr því samtali hafi komið fram hugmyndir um sameiningu. Skólarnir hafi báðir verið leiðandi í fjarnámi. Þeir hafi farið í þetta samtal og séð ýmis tækifæri í því að sameinast.
Hún segir fýsileikakönnun aðeins hafa verið fyrsta skrefið. Niðurstaða hennar hafi verið að skólarnir deildu framtíðarsýn og á þeim grundvelli væri nú verið að vinna hugmyndina áfram. Það yrði unnið með starfsfólki skólanna.
„Stóran og öflugan opinberan háskóla á landsbyggðinni,“ sagði Áslaug. Hún sagði kennsluna fara fram í fjarnámi en líka á Akureyri þar sem væri hægt að efla staðnám.
Hún sagði þetta ekki sparnaðaraðgerð heldur aðallega gert til að efla háskólakerfið. Með sameiningunni væri hægt að bjóða upp á fjölbreyttara háskólanám. Sem dæmi væri ákall að norðan að kenna meira listnám á háskólastigi.
Selja húsnæði á Bifröst
Áslaug sagði ákall frá almenningi um sveigjanleika í háskólanámi og tók undir orð Ólínu Þorvarðardóttur, prófessors og deildarforseta félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst, í þættinum í gær þar sem hún sagði fjarnámið tæki til að tryggja jafnræði.
Hún sagði að ef verði af sameiningunni sé gert ráð fyrir því að 250 milljónir verði lagðar í rannsóknasjóð en að einnig sé gert ráð fyrir fjármagni vegna sölu bygginga á Bifröst.
Hvalveiðimálið sett til hliðar
Hvað varðar stöðu ríkisstjórnarinnar sagði Áslaug að það hefði auðvitað margt verið rætt hvað varðar álit umboðsmanns í hvalveiðimálinu en í ljósi tíðinda af krabbameini Svandísar væri það mál sett til hliðar. Hún sagði alla ríkisstjórna styðja Svandísi í því verkefni sem hún á fyrir höndum.
Áslaug Arna sagði stór verkefni framundan fyrir ríkisstjórnina og að það yrði lögð mest áhersla á efnahagsmál.
Er hún ekki að liðast í sundur?
„Nei, við höfum stór verkefni framundan. Hvort sem er það er breytingar okkar eða viðbrögð okkar við stöðunni í Grindavík sem við erum hvergi nærri búin, heldur verður áframhaldandi áskorun,“ sagði Áslaug Arna.