Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri, segir nýju sprungurnar í bænum ekki ýkja stórar en þær séu viðsjárverðar. Þá séu þær sprungur sem fyrir voru í bænum margar hverjar stórhættulegar.
Hann segir að nú séu slökkviliðsmenn og björgunarsveitamenn inni í bænum og verktakar við vinnu varnargarða vestan við bæinn. Forgangsverkefni sé að koma heitu vatni og rafmagni á hús í bænum.
Bjartsýnn fyrir hönd Grindvíkinga
Aðspurður um hvort rýmingaráætlun sé til staðar þar sem varað hefur verið við skyndilegum opnunum nýrrar gossprungna, segist Úlfar gæta fyllsta öryggis.
„Það eru mjög fáir einstaklingar inni í bænum. Ég met stöðuna tiltölulega örugga. Þetta gos fer minnkandi, það er bersýnilegt. Hrauntungan sem nær inn í bæinn er nánast alveg stöðvuð og lítil sem engin virkni í gígnum þarna næst bænum. En ég geri mér jafnframt grein fyrir því að það getur ýmislegt gerst og maður getur haft af því ákveðnar áhyggjur.“
Aftur á móti hafi verið gott að koma inn í bæinn.
„Hann er þarna og hefur lítið breyst, annað en að það varð altjón á þremur húsum sem er auðvitað sorglegt og vont.“
En ég er enn sem fyrr sem bjartsýnn fyrir hönd Grindvíkinga.