Samkvæmt frétt Washington Post vilja Bandaríkjamenn útvíkka alþjóðlegt samstarf á svæðinu til að verja skip á svæðinu. Mikið púður er lagt í að reyna að koma í veg fyrir útbreiðslu átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.
Hútar eru einn af mörgum hópum í Mið-Austurlöndum sem njóta stuðnings yfirvalda í Íran, eins og Hamas og Hezbollah, og hafa um árabil háð blóðuga styrjöld við alþjóðlega viðurkennd stjórnvöld í Jemen. Þeir hafa sömuleiðis gert árásir í Sádi-Arabíu en Sádar hafa staðið við bakið á yfirvöldum í Jemen.
Hópurinn stjórnar Sanaa, höfuðborg Jemen, og stórum hlutum landsins í norðri og vestri.
Til að komast inn í Rauðahaf þarf að sigla skipum um Aden-flóa og Bab al-Mandab-sund. Skipin fara því mjög nærri ströndum Jemen og yfirráðasvæði Húta. Á undanförnum vikum hafa Hútar skotið eldflaugum og flogið sjálfsprengidrónum að nokkrum flutningaskipum.
Hútar hafa einnig sent sérsveitarmenn til að taka stjórn á einu skipi sem siglt var til hafnar í Jemen.
- 19-11-2023 pic.twitter.com/xukot1li7g
— (@MMY1444) November 20, 2023
Forsvarsmenn herafla Frakklands tilkynntu í gær að áhöfn franskrar freigátu hefði skotið niður tvo dróna sem flogið hefði verið að skipinu frá Jemen um helgina. Bandarísk herskip hafa einnig skotið niður eldflaugar og dróna frá Jemen á undanförnum vikum. Í einu tilviki skutu Hútar á þrjú flutningaskip á Rauðahafinu.
Leiðtogar Húta lýstu því yfir um helgina að árásir yrðu gerðar á öll skip sem siglt væri til Ísraels og kæmu ekki við á Gasaströndinni til að flytja neyðarbirgðir þangað. Skipum sem tengdust Ísrael á engan hátt og væru ekki á leið þangað gætu siglt um svæðið.
Tzachi Hanegbi, sem leiðir þjóðaröryggisráð Ísrael, sagði um helgina, samkvæmt frétt CNN, að Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, hefði rætt við Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, og leiðtoga Þýskalands, Frakklands og Bretlands um málið.
Netanjahú mun hafa sagt þeim að um alþjóðlegt vandamál sé að ræða en verði ekkert gert, muni Ísraelar gera það sjálfir. Hanegbi neitaði að svara spurningu um hvort hann væri að segja að Ísraelar myndu gera árásir á Húta í Jemen.