Eldurinn kviknaði um klukkan sex í morgun. Íbúum tókst að koma sér út af sjálfsdáðun fyrir utan einn sem var bjargað út og fluttur á slysadeild, þar sem hann liggur þungt haldinn.
Fjöldi fólks safnaðist saman fyrir framan húsið og var viðbragsðteymi Rauða krossins kallað til. Oddur Freyr Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Rauða Krossins, segir í samtali við fréttastofu að fólkinu hafi verið komið fyrir í tímabundnu húsnæði og verið var að gera ráðstafanir með framhaldið þegar ljóst var að það gæti farið aftur heim.
Í húsinu eru litlar íbúðareiningar og hafa allir íbúar nú snúið aftur heim til sín fyrir utan þá sem búa í íbúðinni sem eldurinn kom upp í. Oddur Freyr segir að viðbragðsaðilar hafi veitt sálræna fyrstu hjálp en bendir á að hægt sé að hringja í hjálparsíma Rauða krossins í síma 1717, vanti fólki stuðning eða líði illa.
Starfsmannaleigan Mönnun ehf er skráð til húsa í Stangarhyl 3 auk nokkurra einstaklinga. Rannsóknarlögregla hefur nú tekið yfir vettvanginn og rannsakar tildrög eldsins.