Fimm særðust í árásinni og eru mörg hús sögð hafa orðið fyrir skemmdum. Vítalí Klitskó, borgarstjóri Kænugarðs, segir eld hafa kviknað í leikskóla þegar brak féll á hann.
Nærri því tvö hundruð byggingar urðu rafmagnslausar vegna árásarinnar.
russian terrorists launched another drone attack on Ukraine last night.
— Ukrainian Air Force (@KpsZSU) November 25, 2023
74 Shaheds and one missile were shot down.
Glory to Ukraine's air defenders!
Um fjörutíu prósent drónanna eru sagðir hafa verið skotnir af hreyfanlegum loftvarnarsveitum. Samkvæmt frétt Reuters eru það oftar en ekki menn á pallbílum með áfastar vélbyssur eða loftvarnabyssur.
Undanfarna mánuði hafa Rússar sparað sjálfsprengidróna sína og eldflaugar og hafa Úkraínumenn og bakhjarlar þeirra óttast að umfangsmiklar árásir verði gerðar á orkuinnviði landsins í vetur, eins og gert var síðasta vetur.
Yfirvöld í Úkraínu segja Rússa hafa beint rúmlega 1.200 eld- og stýriflaugum og sjálfsprengidrónum frá Íran að orkuinnviðum landsins frá október 2022 til apríl 2023. Þessar árásir ollu miklum skemmdum.
Rússar eru taldir hafa aukið framleiðslu á langdrægum eldflaugum á undanförnum mánuði. Fyrir ári síðan voru þeir taldir geta framleitt um fjörutíu slíkar á mánuði. Nú er talið að þeir geti framleitt um hundrað. Þar að auki framleiða Rússar mikið magn Shahed sjálfsprengidróna sem þeir fengu frá Íran og Lancet-dróna sem þróaðir voru í Rússlandi, auk þess sem þeir geta keypt dróna og eldflaugar frá Íran.

Geta Rússa til að gera árásir á innviði Úkraínu í vetur, gæti því verið mun meiri en hún var í fyrra og á sama tíma er skortur á vestrænum loftvarnarkerfum og framleiðsla á flugskeytum fyrir sum loftvarnarkerfin heldur ekki í við notkun Úkraínumanna.
Sjá einnig: Erfiður vetur í vændum hjá Úkraínumönnum
Úkraínumenn hafa þó fengið töluvert magn af loftvarnarkerfum. Þjóðverjar tilkynntu í vikunni að tvö Iris-T kerfi yrðu send til Úkraínu og eitt Patriot-kerfi, sem er líkleglega það háþróaðasta í heiminum.
Úkraínumenn segjast þar að auki betur tilbúnir til að svara fyrir árásir á innviði í Úkraínu, með árásum á innviði í Rússlandi.
Minnast Holodomor í dag
Úkraínumenn minnast í dag hungursneyðarinnar í Úkraínu á árunum 1932-1933.
Hungursneyðin, sem nefnist Holodomor, varð á valdatíma Stalíns í Sovétríkjunum og dró milljónir Úkraínumanna til dauða. Þar var svelti beitt markvisst til þess að bæla niður úkraínska þjóðarvitund, svæði voru jafnvel girt af svo sveltandi fólkið gat ekki flúið aðstæður sínar. Alþjóðasamfélagið hefur margoft fordæmt hungursneyðina en Rússar hafa alla tíð neitað að um hópmorð sé að ræða.
Alþingi viðurkenndi Holodomor í mars sem hópmorð á úkraínsku þjóðinni.