Í fréttum Stöðvar 2 var greint frá nýjustu tíðindum af stöðu mála en svæðið í kringum Þorbjörn er núna í gjörgæslu jarðvísindamanna og almannavarna. Kort, sem Veðurstofan birti í hádeginu í dag, sýnir hvar land hefur risið um 4-5 sentímetra vegna uppsöfnunar kviku vestan við Þorbjörn og norðvestan Grindavíkur.
Landrisið þar hefur verið hratt og öflugt síðustu fjóra sólarhringa, að sögn Halldórs Geirssonar, jarðeðlisfræðings við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.
„Fer svona tiltölulega skarpt af stað en heldur svo áfram bara af töluvert miklum krafti,“ segir Halldór.

Undanfarin fjögur ár, frá ársbyrjun 2020, hafa hins vegar nokkrir slíkir atburðir gerst á þessu sama svæði við Þorbjörn og Eldvörp án þess að kvika næði til yfirborðs með eldgosi.
„Þetta ristímabil hérna við Þorbjörn er fimmta ristímabilið sem við erum með á þessum tíma,“ segir Halldór.
Landrisið núna sker sig þó úr sem það hraðasta í umbrotunum til þessa.
„Töluvert hraðara heldur en í fyrri hrinum. Og við sjáum líka að nú erum við komin upp fyrir hástöðuna sem var í hinum ristímabilunum.“

Skjálftakort markar umbrotasvæðið og gögnin gefa vísbendingu um hve nærri yfirborði kvikan er komin.
„Þau dýpi sem koma út eru svona eitthvað í kringum fjóra kílómetra. Og það passar í sjálfu sér mjög vel við dýpið sem megnið af jarðskjálftavirkninni er á.“
Skammvinnt kvikuhlaup í tvær klukkustundir í gærmorgun gæti þó hafa náð ofar upp í jarðskorpuna.
„Smáskjálftar sem urðu í þessum atburði náðu mjög grunnt, kannski upp í kílómeters dýpi, eða eitthvað svoleiðis. En í sjálfu sér eru engar vísbendingar út frá aðlögunargögnum um að kvika hafi í raun og veru komist svo grunnt,“ segir Halldór.
Og nýjustu gögn gefa ekki til kynna að kvika sé að brjóta sér leið ofar, samkvæmt yfirliti Veðurstofunnar í dag.
-Eins og staðan er núna á þessari stundu, síðdegis í dag, þá er ekkert sem bendir til þess að gos sé beinlínis yfirvofandi?
„Nei, það er ekkert, svo ég viti, sem bendir til þess,“ svarar jarðeðlisfræðingurinn.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: