Horfa má á fundinn í spilaranum neðst í greinni
Í tilkynningu frá samtökunum segir að ungir bændur standi flestir frammi fyrir fjárhagslegum ómöguleika og ungt fólk sem vill hefja hefðbundinn búskap eigi enga möguleika. Mikil ógn steðji að nauðsynlegri nýliðun í stétt bænda.

„Um leið er fæðuöryggi þjóðarinnar sett í uppnám. Skýr merki sáust nýlega um að þegar harðnar á dalnum er hver þjóð sjálfri sér næst hvað nauðþurftir varðar. Þess vegna þurfum við að slá skjaldborg um íslenskan landbúnað,“ segir í tilkynningunni.
Ályktun verður borin upp til samþykktar á fundinum þar sem skorað verður á stjórnvöld „að opna augun, leggja við hlustir og skapa sinn eigin skilning á raunverulegri stöðu landbúnaðarins.“
Samtökin segja það ekki rétt að búrekstur á Íslandi njóti meiri stuðnings en nágrannalöndin í austri og vestri. „Staðreyndin sé sú að hvar sem er í heiminum sé ræktun og framleiðsla landbúnaðarafurða svo kostnaðarsöm að stjórnvöld á hverjum stað kjósi að styðja starfsemina með margvíslegum hætti.“