Geimstöðin heitir Tiangong, sem lauslega þýtt þýðir Himnahöll, og var hún tekin í notkun í fyrra. Þar geta þrír geimfarar starfað í um 450 kílómetra hæð frá jörðinni.
Eftir stækkunina verður geimstöðin um 180 tonn, samkvæmt frétt Reuters og verður hún þrátt fyrir það eingöngu fjörutíu prósent af stærð Alþjóðlegu geimstöðinni (ISS) sem hefur verið á braut um jörðu í 24 ár.
Til stendur að láta ISS brenna upp í gufuhvolfi jarðarinnar og falla í hafið eftir árið 2030. Ráðamenn í Kína segja hins vegar að Tiangong verði starfrækt í að minnsta kosti fimmtán ár til viðbótar, samkvæmt frétt Reuters.
Ríkismiðlar Kína hafa áður sagt að ráðamenn nokkurra ríkja hafa beðið um að fá að senda geimfara til Tiangong.
Hafa lengi falast eftir samstarfi
Kínverjar hafa lengi leitað að samstarfsaðilum í geimnum en þróun geimferðaáætlunar ríkisins hefur verið mjög hröð frá því Kína sendi fyrstu geimfarana út í geim árið 2003. Kínverjum hefur þó verið meinaður aðgangur að samstarfinu um Alþjóðlegu geimstöðina og yfirvöld í Bandaríkjunum hafa bannað mest allt samstarf með Kínverjum á sviði geimvísinda.
Það hefur verið gert vegna ótta um njósnir og stuld á leynilegum upplýsingum.
Sjá einnig: Kínverjar leitast eftir alþjóðlegu samstarfi í geimnum
Forsvarsmenn Geimvísindastofnunar Evrópu, ESA, tilkynntu þó á árum áður að evrópskir geimfarar yrðu sendir til Tiangong. Á þessu ári var þó tilkynnt að ekkert yrði að því og vísaði ESA til skorts á fjármunum og skorti á pólitískum vilja til að taka þátt í Tiangong.
Bandarískir og evrópskir ráðamenn beina sjónum sínum nú í meira magni að tunglinu og lengra út í sólkerfið en það gera Kínverjar einnig og segjast þeir ætla að lenda geimförum á tunglinu árið 2030.
Sjá einnig: Kína ætlar að koma fólki á tunglið
Stórveldi heimsins ætla sér öll líka að koma upp geimstöð á braut um og/eða á yfirborði tunglsins á næstu árum. Bandaríkjamenn hafa um árabil unnið að Artemis-áætluninni svokölluðu sem snýr að því að koma mönnum til tunglsins aftur en í fyrra var ómannað geimfar sent á braut um tunglið.
Næst stendur til að senda mannað geimfar á braut um tunglið en áætlað er að það gerist í nóvember á næsta ári.