Skoðun

Út­farar­þjónusta fyrir raf­tæki

Hildur Mist Friðjónsdóttir og Þorbjörg Sandra Bakke skrifa

Margir kannast við það að eiga lager af raftækjum sem hafa dagað uppi í skúffum og skápum á heimilinu. Allt frá fótanuddtækjum til brauðvéla og sous vide tækja, að ógleymdum tölvum og símum. Þessi tæki eru góðar heimildir um tískubylgjur síðustu ára því eitt sinn voru þau vinsæl og eftirsótt en núna taka þau aðallega pláss á heimilinu.

Raftæki eru orðin órjúfanlegur partur af lífi flestra en ekki allir vita að þessi tæki eru búin til úr sjaldgæfum og verðmætum málmum sem takmarkað er eftir af í heiminum. Raftækjaúrgangur er einnig sá straumur heimilisúrgangs sem vex hvað hraðast á heimsvísu og aðeins lítill hluti þessara tækja skilar sér til endurvinnslu. Mikilvægt er að bregðast við þessum áskorunum sem fyrst en hvað er hægt að gera?

Hvernig er best að hvetja fólk til að koma gömlum og ónýtum raftækjum í réttan farveg í stað þess að geyma þau í skúffum og skápum?

Hvernig er hægt að hvetja fólk og fyrirtæki til að fara með raftæki í viðgerð?

Gætu nágrannar samnýtt raftæki? Hvernig er mögulegt að útfæra það?

Má nýta gömul raftæki til einhverskonar listsköpunar?

Er hægt að koma raftækjum sem fyrirtæki eru hætt að nota í áframhaldandi notkun annarsstaðar?

Hvernig er hægt að stuðla að betri flokkun og endurvinnslu raftækja?

Er gerlegt að finna lausnir á ofangreindum vandamálum eða þarf jafnvel að koma á fót útfararþjónustu fyrir raftæki*?

Þessar áskoranir og fleiri verða teknar fyrir á Tækjaþoni – tveggja daga hugmyndasamkeppni um lausnir gegn raftækjasóun sem haldin verður dagana 13. og 14. október. Viðburðurinn er opinn öllum, það er frítt inn, veitingar í boði og vegleg verðlaun fyrir hugmyndina sem hreppir fyrsta sætið.

Komdu á Tækjaþon og skapaðu lausnir gegn raftækjasóun. Skráning er nauðsynleg og fer fram á samangegnsoun.is.

Tækjaþon er samstarfsverkefni Saman gegn sóun, Sorpu, Úrvinnslusjóðs, Tækniskólans og fleiri aðila.

*Útfararþjónusta fyrir raftæki er ein af óteljandi hugmyndum sem kom fram á hagsmunaaðilafundi um raftæki sem fór fram í maí síðastliðnum.

Höfundar eru Hildur Mist Friðjónsdóttir sérfræðingur á sviði loftslags og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun og Þorbjörg Sandra Bakke teymisstjóri á sviði loftslags og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun.




Skoðun

Sjá meira


×