Þetta staðfesti Kristján Loftsson forstjóri Hvals við Morgunblaðið. Kristján hefur ekki svarað ítrekuðum tilraunum fréttastofu til að ná tali af honum í dag.
Spurningar um hvort vertíðinni væri lokið voru á lofti í dag eftir að aðgerðarsinninn Katrín Oddsdóttir birti færslu á Facebook-síðu sína um að svo væri. „Mikið vona ég að þar með hafi síðasta langreyðurin verið veidd fyrir fullt og allt,“ segir hún í færslunni.
Alls voru 24 langreyðar veiddar á vertíðinni, í samanburði við 148 á vertíðinni í fyrra. Í september á síðasta ári veiddust 38 langreyðar.
„Þeir skjóta sem þora“
Veiðar Hvals 8 voru stöðvaðar á dögunum eftir að veiðimenn hæfðu langreyð „utan tilgreinds marksvæðiðs“ með þeim afleiðingum að dauðastríð dýrsins varð lengra en ella. Um það bil 30 mínútur liðu þar til dýrið var skotið aftur eftir misheppnaða fyrstu tilraun.
Þá var greint frá því síðustu helgi að nær fullvaxta kálfur hefði verið dreginn úr langreyði sem var drepin á föstudag. Í nýrri reglugerð matvælaráðherra um veiðarnar segir að ekki megi skjóta hvali sem kálfar fylgja.
„Þeir skjóta sem þora,“ sagði Kristján í samtali við Morgunblaðið um mögulega stjórnvaldssekt vegna málsins.